Víkverji er hér með hættur að aka fyrir Hvalfjörðinn eftir að rannsóknir hafa sýnt að það er sex sinnum öruggara að fara göngin. Víkverji hefur yndi af því að aka fyrir Hvalfjörðinn ef veðrið er fallegt og tíminn nógur.

Víkverji er hér með hættur að aka fyrir Hvalfjörðinn eftir að rannsóknir hafa sýnt að það er sex sinnum öruggara að fara göngin. Víkverji hefur yndi af því að aka fyrir Hvalfjörðinn ef veðrið er fallegt og tíminn nógur. Það er hins vegar ástæða til að athuga sinn gang eftirleiðis, þótt ekki sé beinlínis skemmtilegt að aka göngin. Það bregst ekki að bíllinn fyllist af útblæstri annarra bíla og svo er þetta þreytandi fyrir augun líka. En fólkið í gjaldskýlinu er til fyrirmyndar í alla staði og lipurt. Hvernig skyldi annars dagurinn líða hjá því? Eru margir sem biðja um lán, eða eru með eitthvert vesen? Það kom einu sinni fyrir Víkverja að gleyma veskinu í bænum og fékk þá fyrirtaksúrlausn sinna mála hjá gjaldverðinum.

En varðandi öryggi í göngunum skiptir gríðarlegu máli að halda hraðanum niðri og segja má að hraðamyndavélarnar hafi skikkað langflesta til að halda sér á mottunni í þeim efnum. Hraðinn var nefnilega allt of mikill fyrstu árin. Það þarf ekki nema eitt sprungið dekk til að bíll kastist út í vegg eða framan á bíl á móti og þá er illt í efni ef hraðinn er um og yfir 100 km á klst.

Það er bannað að klappa í Skálholtskirkju að því er í fréttum hermir. Vígslubiskupinn áréttaði þessa hefð í vikunni, en eftir situr spurningin hvað verði gert ef einhver brýtur þessa reglu. Er eftirlitsmaður í kirkjunni sem sér um að hasta á kirkjugesti eða reka það út?

Úr því að minnst er á Skálholt verður Víkverji að mæla með tveimur fantagóðum skáldsögum. Þetta eru auðvitað bækur þeirra Gunnars Gunnarssonar (Jón Arason frá 1948) og Ólafs Gunnarssonar (Öxin og jörðin frá 2003). Víkverji er að lesa þær samhliða, ætlaði reyndar að geyma bók Gunnars uns lestri hinnar væri lokið, en leit á fyrstu síðuna fyrir forvitni og gat ekki hætt. Þótt hann eigi 400 síður eftir ólesnar finnst honum strax fúlt að eiga ekki meira eftir.