Í fyrradag birtist svohljóðandi bréf í Velvakanda Morgunblaðsins frá Guðrúnu Jónu Jónsdóttur: "Ég er 26 ára gömul og er í hjólastól eftir líkamsárás, sem ég varð fyrir 1993. Nóg um það. Eins og flesta aðra langar mig til útlanda.

Í fyrradag birtist svohljóðandi bréf í Velvakanda Morgunblaðsins frá Guðrúnu Jónu Jónsdóttur:

"Ég er 26 ára gömul og er í hjólastól eftir líkamsárás, sem ég varð fyrir 1993. Nóg um það.

Eins og flesta aðra langar mig til útlanda. En til þess að það geti orðið þarf ég tvo aðstoðarmenn. En ég þarf sjálf að borga fyrir þá og hef ekki efni á því, því eins og aðrir öryrkjar veð ég ekki í peningum.

Mér finnst eins og það sé alltaf verið að hegna manni fyrir að vera óvinnufær þegn því ekki bað ég um að verða fyrir árás og verða rænd framtíð minni og frelsi.

Ég skora á flugfélögin, félagsþjónustuna, ríkið - eða Guð má vita hvern - að bæta úr þessu."

Það eru mannréttindi að fólk, þótt það sé veikt, fatlað, eða eigi við aðra erfiðleika að stríða, geti í einhverju notið þess sem þorri landsmanna telur sjálfsagðan þátt í daglegu lífi.

Það er hins vegar býsna stór hópur sem nýtur ekki þeirra lífsgæða. Guðrún Jóna segir í bréfi sínu frá hlutskipti sumra í þessum hópi.

Flugleiðir hafa haft frumkvæði að því að leggja fram fé og safna fé hjá farþegum sínum til þess að auðvelda alvarlega veikum börnum og fjölskyldum þeirra að njóta sumarleyfis í útlöndum. Í því starfi Flugleiða hefur komið í ljós að þörfin fyrir slíka aðstoð er langtum meiri en nokkurn gat órað fyrir.

Við búum ekki í velferðarþjóðfélagi sem stendur undir því nafni ef Guðrún Jóna og aðrir þeir sem hafa kynnzt þessari hlið á lífinu geta ekki notið þessara þátta lífsins eins og aðrir.

Í Morgunblaðinu í gær kemur fram að engin lagaákvæði eru til um aðstoð við fatlaða í utanlandsferðum. Hjá Félagsþjónustu Reykjavíkurborgar fengust þær upplýsingar að ekki væri greitt fyrir slíkum ferðum. Svæðisskrifstofur fatlaðra bjóða ekki upp á neina styrki fyrir fatlaða sem vilja fara til útlanda. Hins vegar eru laun stuðningsmanna greidd í útlöndum eins og aðra daga. Sjálfsbjörg rekur hjálparliðasjóð sem hefur yfir takmörkuðum fjármunum að ráða.

Hér er á ferðinni mikið réttlætismál. Það á að gera fötluðu fólk kleift að fara í sumarfrí til útlanda. Það á að veita því stuðning sem dugar. Þetta er eitt af þeim málum sem embættismenn og almennir starfsmenn viðkomandi stofnana ráða ekki við. Þetta er eitt af þeim málum þar sem stjórnmálamenn verða að taka af skarið. Athygli þeirra, hvort sem er á vettvangi ríkis eða sveitarfélaga, er hér með vakin á bréfi Guðrúnar Jónu Jónsdóttur.