Bobby Fischer er snillingur. Líklega mesti skáksnillingur, sem uppi hefur verið. Saga hans er samofin samtímasögu okkar Íslendinga. Það var hér á Íslandi, sem Fischer vann heimsmeistaratitilinn í skák.

Bobby Fischer er snillingur. Líklega mesti skáksnillingur, sem uppi hefur verið. Saga hans er samofin samtímasögu okkar Íslendinga. Það var hér á Íslandi, sem Fischer vann heimsmeistaratitilinn í skák. Það var líka hér á Íslandi, sem Spasskí sýndi, hvernig menn, sem eru stórir í sniðum, taka tapi. Að mörgu leyti má segja, að Spasskí hafi unnið einn mesta sigur skáksögunnar með tapinu fyrir Fischer 1972.

Snillingar eru oft sér á parti. Hvort Fischer er sérvitur snillingur eða hvort hann á við djúpstæð vandamál að stríða af öðrum toga skal ósagt látið. Hitt er ljóst að þessi mikli skáksnillingur á ekki skilið að verða fórnarlamb þeirra sviptinga, sem oft verða í utanríkispólitík Bandaríkjanna.

Minni bandarískra stjórnvalda er að vísu ekki langt. En þau ættu þó að minnast þess að árið 1972 vann Fischer ekki einungis sigur í skák við skákborð hér í Reykjavík. Um allan heim upplifði fólk sigur hans sem pólitískan sigur hins frjálsa heims gagnvart kúgunarkerfi kommúnismans. Þess vegna komu bandarísk stjórnvöld á þeim tíma við sögu skákeinvígisins í Reykjavík.

Það væri hneyksli, ef Bobby Fischer yrði settur í fangelsi í Bandaríkjunum vegna þess að hann hagaði lífi sínu ekki í samræmi við utanríkispólitík Bandaríkjanna.

Þessi einræni snillingur á að fá að lifa í friði, þar sem honum hentar bezt og þar sem hann hefur einhverja möguleika á að láta sér líða eins vel og kostur er. Kannski er það á Íslandi og ef svo er eigum við að taka honum opnum örmum.

Alla vega eigum við Íslendingar að beita þeim áhrifum, sem við kunnum að hafa á bandarísk stjórnvöld, til þess að knýja á um að ágreiningsmál Bobbys Fischers og stjórnvalda í heimalandi hans verði leyst á mannúðlegan hátt.

Bobby Fischer er enginn afbrotamaður. Hann er snillingur, sem augljóslega hefur átt erfiða ævi og líklega aldrei komizt yfir þá persónulegu erfiðleika, sem hann kann að hafa upplifað í æsku.

Hér á Íslandi er stór hópur af fólki, sem mun fylgjast vandlega með því hvernig Bandaríkjamenn taka á máli Bobbys Fischers, og hið sama á við um fólk víða um heim.

Það eru ekki allir steyptir í sama mót. Bobby Fischer er einn þeirra, sem hafa farið sínar eigin leiðir í lífinu. Bandarískt þjóðfélag hefur haft meira lag á því en flest önnur samfélög að leyfa slíkum mönnum að njóta sín og Bandaríkjamenn hafa uppskorið í samræmi við það.

Nú er komið að því, að bandarískt stjórnkerfi sýni á sér allar sínar beztu hliðar og leyfi Bobby Fischer að lifa í friði.