RÍKISENDURSKOÐUN hefur sent frá sér svar við athugasemdum fjármálaráðuneytis vegna skýrslu um framkvæmd fjárlaga ársins 2003. Jafnframt er viðurkennt að nokkrar villur hafi mátt finna í skýrslunni.

RÍKISENDURSKOÐUN hefur sent frá sér svar við athugasemdum fjármálaráðuneytis vegna skýrslu um framkvæmd fjárlaga ársins 2003. Jafnframt er viðurkennt að nokkrar villur hafi mátt finna í skýrslunni.

Hvað varðar samanburð gjalda og heimilda telur Ríkisendurskoðun engan ágreining vera um að eðlilegt sé að bera gjöld á rekstrargrunni saman við fjárlög. Vandamálið sé hins vegar, að upplýsingar um rekstrargrunn liggi ekki fyrir fyrr en um hálfu ári eftir lok reikningsársins. Telur Ríkisendurskoðun ekki viðunandi að marktækar upplýsingar um afkomu og framvindu ríkisfjármála liggi ekki fyrir fyrr en hálfu ári eftir að reikningsári lýkur. "Ríkisendurskoðun hefur ítrekað látið í ljós það álit sitt að flýta þyrfti uppgjöri ríkissjóðs þannig að endanlegar niðurstöðutölur rekstrar liggi fyrir fljótlega eftir áramót," segir í svarinu.

Ríkisendurskoðun áréttar einnig, að í skýrslunni hafi verið vakin athygli á, hve illa hafi gengið að hafa fjárstjórn ríkisins í samræmi við þær fyrirætlanir sem fram koma í fjárlögum. "Loks hefur Ríkisendurskoðun hvað eftir annað bent á, að viðbótarfjárheimildir þurfi að samþykkja með formlegum hætti af Alþingi áður en stofnað er til útgjalda, en ekki eftir á, eins og lengi hefur tíðkast," segir ennfremur.

Fallist er á, að samanburður skýrslunnar á þjóðhagsstæðum sé ekki réttmætur, þar sem tölur frumvarpsins og tölur Hagstofunnar séu ekki sambærilegar. Er orðalag skýrslunnar, þar sem sagt var að ljóst væri að verulegrar ónákvæmni hefði gætt undanfarin ár í þeim spám og forsendum sem fjárlög hefðu byggst á, dregið til baka, og segir í svarinu, að "réttara hefði verið að segja, að nokkurrar ónákvæmni hafi gætt undanfarin ár í þeim spám og forsendum sem frumvörp til fjárlaga hafa byggst á".

Meginábendingar standi þrátt fyrir villur

Nokkrar villur í skýrslunni eru leiðréttar í svari Ríkisendurskoðunar, og beðist velvirðingar á þeim. Meðal þeirra er misritun um að ellefu fjárlagaliðir iðnaðarráðuneytis hafi farið yfir fjárheimild, en hið rétta er að einungis einn þeirra fór yfir heimild. Samkvæmt töflu í skýrslunni kom ráðuneytið mjög illa út, en hið rétta er, "að ráðuneytið stendur sig best allra ráðuneytanna hvað samanburð fjárheimilda og útkomu varðar", segir í svari Ríkisendurskoðunar.

Stendur við meginábendingar

Í lokaorðum svars Ríkisendurskoðunar segir, að þrátt fyrir þá gagnrýni sem einstök atriði skýrslunnar hafi hlotið þá standi eftir meginábendingar skýrslunnar um að mikilvægt sé að bæta fjármálastjórn stofnana og aga við framkvæmd fjárlaga. "Umframkeyrsla sem viðgengist hefur hjá ráðuneytum og einstökum stofnunum í mörg ár vinnur gegn markmiðum stjórnvalda um hóflega aukningu ríkisútgjalda og hallalausan rekstur ríkissjóðs. Þá þarf að taka á málum stofnana sem safnað hafa neikvæðri stöðu gagnvart fjárheimildum á undanförnum árum," segir í lokaorðum svarsins.