DONALD Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði á fréttafundi í ráðuneyti sínu í gær, að árásir og mannrán síðustu daga í Írak myndu ekki hafa áhrif á aðgerðir Bandaríkjastjórnar þar í landi.

DONALD Rumsfeld, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, sagði á fréttafundi í ráðuneyti sínu í gær, að árásir og mannrán síðustu daga í Írak myndu ekki hafa áhrif á aðgerðir Bandaríkjastjórnar þar í landi. Sagði Rumsfeld að það byði hættunni heim að ´fara að kröfum hryðjuverkamanna þegar hann var spurður um afstöðu sína til þess að filipps- eysk stjórnvöld kölluðu aftur herlið sitt í Írak fyrr í vikunni til þess að bjarga lífi gíslsins Angelo dela Cruz. Sex mönnum til viðbótar var rænt í Írak í gær.

Óþekktur, herskár hópur hafði tilkynnt síðdegis í gær að hann hefði sex vörubílstjóra í haldi, tvo Kenýumenn, þrjá Indverja og einn Egypta, og hótaði að hálshöggva þá með þriggja sólarhringa millibili ef heimalönd þeirra hættu ekki stuðningi sínum við innrásarherinn í Írak.

Mannræningjarnir sögðust hafa varað alla þá við sem ættu viðskipti við "bandaríska kúreka-hersetuliðið", eins og segir í yfirlýsingu sem þeir sendu frá sér í gær.

Heimalönd mannanna eru ekki í hópi þeirra sem mynduðu innrásarherinn í Írak í fyrra.

Washington. Bagdad. AP, AFP.