SAMHERJI hf. hefur gengið frá kaupum á frystitogaranum Akrabergi frá Framherja Spf. í Færeyjum, sem er að þriðjungshlut í eigu Samherja. Í kaupsamningi um skipið er ákvæði um skilarétt innan 3ja mánaða frá undirritun.

SAMHERJI hf. hefur gengið frá kaupum á frystitogaranum Akrabergi frá Framherja Spf. í Færeyjum, sem er að þriðjungshlut í eigu Samherja. Í kaupsamningi um skipið er ákvæði um skilarétt innan 3ja mánaða frá undirritun.

Að sögn Þorsteins Más Baldvinssonar, forstjóra Samherja hf., er tilgangur kaupanna að nýta úthafskarfaheimildir, sem Samherja og Íslendingum hefur verið úthlutað, utan lögsögu Íslands. Samskonar kaupsamningur var gerður á síðasta ári milli Samherja og Framherja og gengu kaupin til baka að tæpum tveimur mánuðum liðnum. Ekki er gert ráð fyrir að kaupin hafi áhrif á afkomu Samherja hf.

Úthafskarfaveiðarnar hafa gengið mjög illa í ár og því er þessi leið farin. Samkvæmt vef Fiskistofu hefur Samherji flutt 300 tonn af úthafskarfakvóta sínum yfir á Akrabergið en Samherji hefur yfir að ráða rúmlega 12% af heildaraflaheimildum úthafskarfa.

Fjallað er um þessi viðskipti í hálffimm fréttum KB Banka og þar segir meðal annars svo: "Í kaupsamningnum er ákvæði um skilarétt innan 3ja mánaða frá undirritun og í samskonar kaupsamningi sem gerður var á milli félaganna á síðasta ári gengu kaupin til baka að tæpum tveimur mánuðum liðnum. Það má gera að því skóna að sama lending verði upp á teningnum nú, sérstaklega í ljósi þess að þess er getið í tilkynningunni nú að samskonar samningur hafi verið gerður fyrir ári. Einnig er áfram sami skipstjóri á Akrabergi og svo virðist sem þessi lausn hafi verið farsæl fyrir bæði félög síðast og sjáum við ekki neina ástæðu til að ætla að svo verði ekki einnig nú."