Bill Gates
Bill Gates
BANDARÍSKA tölvufyrirtækið Microsoft ætlar að greiða út sérstakan 32 milljarða Bandaríkjadala arð til hluthafa í nóvember á þessu ári, og samsvarar það 2.270 milljörðum króna.

BANDARÍSKA tölvufyrirtækið Microsoft ætlar að greiða út sérstakan 32 milljarða Bandaríkjadala arð til hluthafa í nóvember á þessu ári, og samsvarar það 2.270 milljörðum króna. Ennfremur ætlar fyrirtækið að kaupa 30 milljarða dala virði af hlutabréfum í sjálfu sér á næstu fjórum árum auk þess sem það hyggst tvöfalda árlegar arðgreiðslur upp í 3,5 milljarða dala.

Greiðslurnar, sem fyrirtækið metur samanlagt á 75 milljarða dala, 5.320 milljarða króna, á fjórum árum, eru taldar vera stærsta greiðsla af þessu tagi sem fyrirtæki hefur reitt af hendi.

Sá aðili sem mun fá stærstu einstöku upphæðina af hinum sérstaka arði er Bill Gates, stofnandi og stjórnarformaður félagsins. Gates mun fá í sinn hlut 3,5 milljarða dala, sem munu renna í sérstakan styrktarsjóð hans og konu hans Melindu Gates. Nú þegar eru 27 milljarðar Bandaríkjadala í sjóðnum, eða nálægt 2.000 milljörðum íslenskra króna.