YFIRVÖLD í Bandaríkjunum, sem rannsaka nú meint bókhaldsmisferli hjá Coca-Cola fyrirtækinu bandaríska, beina nú sjónum sínum að tölvupósti sem sendur var frá höfuðstöðvum fyrirtækisins árið 1999.

YFIRVÖLD í Bandaríkjunum, sem rannsaka nú meint bókhaldsmisferli hjá Coca-Cola fyrirtækinu bandaríska, beina nú sjónum sínum að tölvupósti sem sendur var frá höfuðstöðvum fyrirtækisins árið 1999. Tölvupósturinn inniheldur skilaboð frá Gary Fayard , þáverandi fjármálastjóra félagsins, til útibús Coke í Japan að það leiti leiða til leggja til aukalega 35 milljónir Bandaríkjadala, 2,5 milljarða íslenskra króna , sem á vantaði á þeim tíma til að Coca-Cola gæti uppfyllt hagnaðarmarkmið sín á öðrum ársfjórðungi 1999. Japan er einn stærsti og arðsamasti markaður Coca-Cola í heimi.

Meginefni rannsóknarinnar er ásökun um að Coke hafi flutt óhóflegt magn af drykkjarþykkni til átöppunarverksmiðja og dreifingaraðila í Japan og víðar til að "hífa upp" afkomuna þar á liðnum árum. Coke segir að um viðurkenndar aðferðir í viðskiptum sé að ræða, ekkert sé athugavert við gjörðir félagsins og vinnur að eigin sögn náið með yfirvöldum að rannsókn málsins. Frá þessu er sagt í The Wall Street Journal, en blaðið vísar í ónefnda heimildarmenn sem séð hafa tölvupóstinn umtalaða. Á þessum tíma vantaði Coca-Cola alls 65 milljónir dollara til að ná hagnaðarmarkmiðum sínum.