VÆNTINGAVÍSITALA Gallup lækkaði töluvert í júní og virtist sem skyndilega hafi dregið úr bjartsýni neytenda.

VÆNTINGAVÍSITALA Gallup lækkaði töluvert í júní og virtist sem skyndilega hafi dregið úr bjartsýni neytenda. Sú breyting varð til dæmis á að í fyrsta skipti í tvö og hálft ár töldu neytendur að efnahags- og atvinnuástandið yrði verra eftir sex mánuði, að því er segir í Morgunkorni Íslandsbanka.

"Þessir hagvísar vekja því upp spurninguna um hvort dregið hafi úr vexti einkaneyslu að undanförnu," segir í Morgunkorninu en bent er á að einkaneysla hafi vaxið af mjög að undanförnu. "Árið 2003 jókst einkaneysla um 6,4% og á fyrsta ársfjórðungi í ár hefur hún aukist um 8%, " en það er mesti vöxtur í fimm ár. Í Morgunkorni segir ennfremur að greiðslukortavelta innanlands í maí hafi verið 14,1% meiri en á sama tíma í fyrra á föstu verði. "Þetta er umtalsverður vöxtur og kortaveltuþróun síðustu mánaða gefur til kynna að einkaneysla hafi a.m.k. einnig vaxið af krafti á öðrum ársfjórðungi. Aftur á móti benda mælingar á tiltrú neytenda og þróun atvinnuleysis til þess að eitthvað sé að draga úr vexti einkaneyslu," segir greiningardeild Íslandsbanka.