TEKIN hefur verið upp sú nýbreytni á vefsíðunni uppbod.is, sem opnuð var hinn 17. júní síðastliðinn, að bjóða myndlist og leirlist til sölu. Eigendur vefjarins eru Ari Magnússon antikkaupmaður og Guðrún Þórisdóttir, grafískur hönnuður.

TEKIN hefur verið upp sú nýbreytni á vefsíðunni uppbod.is, sem opnuð var hinn 17. júní síðastliðinn, að bjóða myndlist og leirlist til sölu. Eigendur vefjarins eru Ari Magnússon antikkaupmaður og Guðrún Þórisdóttir, grafískur hönnuður. Guðrún hefur séð um útlit og hönnun vefjarins. Að sögn Ara nýtur vefurinn nú þegar nokkurra vinsælda og fær rúmlega 500 heimsóknir á degi hverjum. "Fjöldi heimsókna fer stigvaxandi og þetta er heldur meira en maður reiknaði með," segir Ari.

Guðfinna Hjálmarsdóttir, sem rekið hefur Gallerí Reykjavík frá árinu 1999 og er auk þess myndlistarmaður að mennt, er umsjónarmaður myndlistardeildar vefjarins. "Þetta hefur farið vel af stað og það hafa margir áhuga fyrir þessu," segir Guðfinna. "Öll verkin eru eftir íslenska listamenn og við bjóðum upp á myndlist, leirlist og postulínsverk. Þetta lækkar talsvert þann kostnað sem listamenn þurfa að greiða til þess að selja sín verk ef eftirspurnin er til staðar. Við viljum hafa góða breidd í þeim verkum sem við bjóðum upp á og höfum bæði dýr og ódýr verk," segir Guðfinna og bætir því við að mörg boð hafi nú þegar borist í nokkur verkanna. Öll uppboðsverkin á vefnum eru til sýnis í Galleríi Reykjavík.

Upplýsingar um uppboðsskilmála og framkvæmd uppboða er að finna á vefsíðunni www.uppbod.is.