Vespuæði: Þær (f. h.) Lilja Rún Kristjánsdóttir, Þórhalla Sigurðardóttir, Hrefna Þórsdóttir og Sunna Árnadóttir taka sig sannarlega vel út á hjólunum, og hjálmurinn er til taks þegar lagt er af stað. Á myndina vantar Veru Dögg Höskuldsdóttur.
Vespuæði: Þær (f. h.) Lilja Rún Kristjánsdóttir, Þórhalla Sigurðardóttir, Hrefna Þórsdóttir og Sunna Árnadóttir taka sig sannarlega vel út á hjólunum, og hjálmurinn er til taks þegar lagt er af stað. Á myndina vantar Veru Dögg Höskuldsdóttur. — Morgunblaðið/Árni Torfason
Hafnarfjörður | Stöllurnar Lilja Rún Kristjánsdóttir, Þórhalla Sigurðardóttir, Vera Dögg Höskuldsdóttir, Hrefna Þórsdóttir og Sunna Árnadóttir hafa sannarlega vakið athygli í Hafnarfirði í sumar, þar sem þær ferðast allar um á léttum bifhjólum, öðru...

Hafnarfjörður | Stöllurnar Lilja Rún Kristjánsdóttir, Þórhalla Sigurðardóttir, Vera Dögg Höskuldsdóttir, Hrefna Þórsdóttir og Sunna Árnadóttir hafa sannarlega vakið athygli í Hafnarfirði í sumar, þar sem þær ferðast allar um á léttum bifhjólum, öðru nafni vespum.

"Við erum fjórar sem höfum átt vespur í nokkurn tíma, og einmitt núna var sú fimmta að kaupa sér einnig," sagði Lilja Rún í samtali við Morgunblaðið. Þær eru allar 16 ára gamlar, nýbúnar með Setbergsskóla og stefna í Flensborgarskólann í haust. Þær hafa verið saman í skóla alla tíð, og stefna á að nota hjólin á leið í skólann eins og veður leyfir.

Ekki margir á vespum í bænum

"Ein okkar fékk svona hjól fyrir nærri tveimur árum, þegar hún hafði aldur til," útskýrir Lilja. "Svo flutti ég í burtu, og þurfti því alltaf að vera í strætó, þangað til að ákveðið var að ég fengi mér vespu líka. Þannig þróaðist það að við fengum okkur allar vespu," bætir hún við.

Aðspurð svarar Lilja að þær fari mikið saman að rúnta á hjólunum, til dæmis í Smáralind eða í miðbæ Hafnarfjarðar. Hún segir vinkonuna sem fyrst fékk sér vespu hafa keypt sína í Danmörku, og flutt hana með sér heim hingað til lands.

"Við höfðum ekki séð marga á svona hjólum áður en við fengum okkur hjól, það var eiginlega bara vinkona okkar sem reið á vaðið og fékk sér vespu," segir Lilja.