Jonathan Idema
Jonathan Idema
BANDARÍSKUR maður sem sakaður er um að hafa haldið úti upp á sitt eindæmi "stríði gegn hryðjuverkum" í Afganistan hélt því fram fyrir rétti í Kabúl í gær að hann hefði verið að sinna leynilegum verkefnum á vegum Bandaríkjahers.

BANDARÍSKUR maður sem sakaður er um að hafa haldið úti upp á sitt eindæmi "stríði gegn hryðjuverkum" í Afganistan hélt því fram fyrir rétti í Kabúl í gær að hann hefði verið að sinna leynilegum verkefnum á vegum Bandaríkjahers.

Maðurinn heitir Jonathan Idema og er sakaður um að hafa tekið fasta átta afganska borgara og síðan misþyrmt þeim við yfirheyrslur, án þess að hafa haft til þess heimild frá bandarískum yfirvöldum. Hann neitar þessum ásökunum og segir að hann og samverkamenn hans, Brent Bennett og Edward Caraballo, hafi á vegum varnarmálaráðuneytisins, Pentagon, verið að leita uppi hryðjuverkamenn í Afganistan. Pentagon hafi hins vegar snúið við þeim baki.

"Bandarísk yfirvöld lögðu blessun sína yfir aðgerðir okkar, þau studdu okkur að fullu og öllu leyti," sagði Idema fyrir réttinum. Segist hann hafa undir höndum afrit af tölvupósti, faxi og öðrum gögnum sem sanni tengslin við skrifstofu Donalds Rumsfelds varnarmálaráðherra. Öllu þessu neita talsmenn Bandaríkjahers.

Bandarískir fjölmiðlar segja að Idema sé "hausaveiðari" sem eitt sinn hafi setið í fangelsi fyrir svikamál. Hann á að hafa barist með Norðurbandalaginu afganska gegn talibönum á sínum tíma og leiddar eru að því líkur að hann kunni að hafa verið að reyna að handsama háttsetta al-Qaeda-liða í því skyni að fara fram á að fá greidd verðlaun.

Fjórir Afganar voru einnig í teymi Idemas og eiga mennirnir sjö yfir höfði sér sextán til tuttugu ára fangelsisdóm.

Kabúl. AFP.