MARGEIR Jónsson, fyrrverandi útgerðarmaður og fiskverkandi, lést á Landspítalanum sunnudaginn 18. júlí sl. Margeir var fæddur 23. nóvember 1916 í Stapakoti í Innri-Njarðvík. Foreldrar hans voru Jón Jónsson útvegsbóndi og kona hans Guðrún Einarsdóttir. Margeir giftist Ástu Ragnheiði Guðmundsdóttir 19. nóvember 1939, en hún lést 20. okt. 1999.
Margeir var í umsvifamiklum atvinnurekstri í Keflavík um langt árabil. Hann var aðaleigandi og framkvæmdastjóri útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækisins Rastar hf. í Keflavík frá stofnun þess 1945 og tók þátt í rekstri síldarsöltunarstöðva á Austurlandi og á Norðurlandi á síldarárunum. Hann stofnaði Reiðhjólaverkstæði í Keflavík 1932 og rak það til 1966.
Margeir var mikill félagsmálamaður, hann átti sæti í bæjarstjórn Keflavíkur og var formaður Rafveitunefndar Keflavíkurbæjar um langt árabil, einnig var hann slökkviliðsstjóri í Keflavík frá 1940 til 1960.
Margeir var mjög virkur í ýmsum félagsmálum atvinnurekenda og þá sérstaklega sjávarútvegsins. Var m.a. um árabil fulltrúi á Fiskiþingi og í stjórn Fiskifélags Íslands, í verðlagsráði sjávarútvegsins, í stjórn Sölusambands ísl. fiskframleiðenda, stjórn Samlags skreiðarframleiðenda, Landsambands ísl. útvegsmanna, Félags síldarsaltenda, var formaður Útvegsbændafélags Keflavíkur um árabil og í stjórn Lífeyrissjóðs Suðurnesja auk margvíslegra annarra trúnaðarstarfa. Hann var einn af stofnendum Málfundafélagsins Faxa, var í forystu Ungmennafélags Keflavíkur, vann að bindindismálum og var um tíma æðstitemplar stúkunnar.
Margeir var sæmdur riddarakrossi Hinnar ísl. fálkaorðu fyrir störf sín.