FORSVARSMENN frjálsíþróttasambands Ástralíu sögðu í fréttatilkynningu sem send var út á dögunum að afreksmaður i frjálsíþróttum lægi undir grun um að hafa notað ólögleg lyf en fyrirhugað var að senda íþróttamanninn á Ólympíuleikana sem hefjast þann 13.

FORSVARSMENN frjálsíþróttasambands Ástralíu sögðu í fréttatilkynningu sem send var út á dögunum að afreksmaður i frjálsíþróttum lægi undir grun um að hafa notað ólögleg lyf en fyrirhugað var að senda íþróttamanninn á Ólympíuleikana sem hefjast þann 13. ágúst í Aþenu. Nafn íþróttamannsins hefur ekki verið gefið upp að svo stöddu en heimildarmenn AFP-fréttastofunnar segja að um sé að ræða karlmann sem sé framarlega í flokki á heimsvísu.

Þetta er ekki fyrsta lyfjamálið sem Ólympíufarar Ástralíu eru bendlaðir við en nýlega var hjólreiðamaðurinn Mark French dæmdur í keppnisbann í heimalandi sínu. Að auki á hópur íþróttamanna yfir höfði sér keppnisbann vegna lyfjanotkunar, en nöfn þeirra hafa ekki verið birt.

Nú standa yfir réttarhöld í Ástralíu þar sem hinn 35 ára gamli spretthjólreiðamaður, Sean Eadie, stendur fast á því að hafa ekki notað ólögleg lyf en hann var á dögunum úrskurðaður í tveggja ára keppnisbann og verður ekki í Ólympíuliði Ástralíu.