BANDARÍSKI spretthlauparinn Mickey Grimes er sagður hafa fallið á lyfjaprófi og er hann þriðji bandaríski frjálsíþróttamaðurinn sem hlýtur þau örlög á undanförnum dögum.

BANDARÍSKI spretthlauparinn Mickey Grimes er sagður hafa fallið á lyfjaprófi og er hann þriðji bandaríski frjálsíþróttamaðurinn sem hlýtur þau örlög á undanförnum dögum. Bandaríska blaðið Chicago Tribune hafði eftir ónafngreindum heimildarmönnum að Grimes hefði fallið á lyfjaprófi en blaðið skýrði áður frá því að Torri Edwards, heimsmeistari í 100 metra hlaupi kvenna, og grindahlauparinn Larry Wade, hefðu einnig fallið.

Allir þessir íþróttamenn hafa haft það markmið að keppa á ÓL í Aþenu. Edwards staðfesti að hún hefði fallið á lyfjaprófi, en sagði að hún hefði ekki tekið ólögleg lyf vísvitandi. Hún tryggði sér á dögunum sæti á ÓL í 100 metra hlaupi.

Wade, sem er í fremstu röð 110 metra grindahlaupara, gæti átt yfir höfði sér tveggja ára keppnisbann ef hann verður fundinn sekur um að hafa neytt steralyfsins norandersterone. Chicago Tribune segir að Grimes hafi einnig orðið uppvís að neyslu norandrosterone þegar hann gekkst undir lyfjapróf í maí.