Fiskvinnsla Norskur prófessor segir að íslenzkur sjávarútvegur njóti ríkisstyrkja í raun og dregur í efa að kvótaálagið standist alþjóðasamninga.
Fiskvinnsla Norskur prófessor segir að íslenzkur sjávarútvegur njóti ríkisstyrkja í raun og dregur í efa að kvótaálagið standist alþjóðasamninga. — Morgunblaðið/Alfons Finnsson
OLA Flåten, prófessor í auðlindahagfræði við Háskólann í Tromsö í Noregi, segir að íslenzk fyrirtæki í sjávarútvegi nýti ríkisstyrki til að kaupa upp fyrirtæki í Noregi og Þýzkalandi. Þannig hafi þau forskot fram yfir aðra á alþjóðavettvangi.

OLA Flåten, prófessor í auðlindahagfræði við Háskólann í Tromsö í Noregi, segir að íslenzk fyrirtæki í sjávarútvegi nýti ríkisstyrki til að kaupa upp fyrirtæki í Noregi og Þýzkalandi. Þannig hafi þau forskot fram yfir aðra á alþjóðavettvangi. Þetta kemur fram í grein eftir prófessorinn í norsku tímariti.

Í greininni segir hann svo: "Á síðustu árum hafa íslenzkar sjávarútvegssamsteypur í nokkrum tilfellum keypt fyrirtæki í öðrum löndum. Íslendingar standa sig betur en aðrir í samkeppninni, segja sumir. Þeir fá opinbera styrki heima fyrir, segi ég, og það gefur þeim ákveðið forskot á alþjóðavettvangi. Ég skal skýra þetta nánar og velta því upp hvort hið íslenzka fyrirkomulag fari í bága við alþjóðlega samninga innan Heimsviðskiptastofnunarinnar, Evrópusambandsins, Evrópska efnahagssvæðisins og Fríverzlunarbandalags Evrópu.

Tveir meginþættir

Það eru einkum tveir þættir í íslenzka fiskveiðistjórnunarkerfinu sem hafa svipuð áhrif og hefðbundnir ríkisstyrkir, svo sem greiðslur samkvæmt fjárlögum og skorður við erlendri samkeppni. Annars vegar er það útdeiling aflaheimilda til fiskiskipa án endurgjalds og hins vegar kvótaálag vegna útflutnings á óunnum fiski. Á Íslandi eru það stór sjávarútvegsfyrirtæki sem eiga fiskiskip og eða framseljanleg fiskveiðiréttindi sem hlutdeild af heildarkvótanum. Til að komast hjá samþjöppun sem hamlar samkeppni eru sett mörk um hve mikla hlutdeild af heildarkvótanum hvert fyrirtæki má eiga og þessi mörk eru víst um 10%. Þegar leyfilegur heildarafli hvers árs hefur verið ákveðinn er honum skipt milli fyrirtækjanna og skipanna eftir aflahlutdeild þeirra. Hluti þessara fyrirtækja hefur keypt heimildir sínar með tilheyrandi kostnaði. Útlendingum er óheimilt að eiga skip og kvóta og það hefur að sjálfsögðu takmarkað samkeppnina á kvótamarkaðnum.

Það er þekkt staðreynd að Íslendingar hafa á síðustu 10 til 20 árum aukið afkastagetuna í fiskveiðunum og náð að viðhalda þokkalega stórum fiskistofnum. Þetta tvennt hefur leitt til aukins virðis kvótans, sem endurspeglast bæði í hærra kvótaverði og auknu markaðsvirði fyrirtækjanna. Það að Íslendingar hafa ákveðið að leggja ekki auðlindagjald á rétthafa kvótans og til dæmis lækka aðra skatta og útgjöld á móti, hefur leitt til mikils hagnaðar í fyrirtækjunum. Hluti af þeim slagkrafti sem myndaður er á þessum grunni er svo notaður til að kaupa upp fyrirtæki í samkeppnislöndunum.

Kvótaálagið

Hinn angi ríkisstyrksins felst í kvótaálaginu þegar fiskinum er landað óunnum erlendis, eða er fluttur óunninn utan. Í lögum nr. 38/1990 stendur að sjávarútvegsráðuneytið geti ákveðið kvótaálag allt að 20% fyrir þorsk og 15% fyrir aðrar fisktegundir, þegar fiskurinn er fluttur óunninn utan. Þessi skipan hefur verið við lýði fyrir botnfisk eins og þorsk og ýsu. Þetta hefur í för með sér að íslenzk fiskvinnslufyrirtæki fá meira og ódýrara hráefni en ef kvótaálagið gilti ekki og öll viðskipti með fisk stæðu jafnfætis, hvað kvóta og markað varðaði.

Það leikur enginn vafi á því að íslenzk sjávarútvegsfyrirtæki njóta viðskiptalegs forskots gegnum þessa tvo þætti borið saman við sjávarútveginn, meðal annars í Noregi.

Alþjóðlegir samningar

En hvað er rangt við það, gætu einhverjir sagt, geta ekki Íslendingar rekið sína efnahagsstefnu eins og þeim sýnist, bæði almennt og sérstaklega fyrir sjávarútveginn? Það er til nokkuð sem heitir alþjóðlegir samningar. Til dæmis hefur Heimsviðskiptastofnun WTO gefið út reglur um viðskipti til að koma í veg fyrir samkeppnishindranir til að greiða fyrir eigin útflutningi. Ekki er leyft að nota styrki til að örva eigin útflutning. Í yfirstandandi umræðum innan WTO um frekara frelsi í viðskiptum og fjárfestingum í veröldinni, eru ríkisstyrkir til sjávarútvegs einn af þáttunum sem margir vilja ræða, Íslendingar meðtaldir. Í mörgum alþjóðastofnunum sem hafa fjallað um fiskveiðistjórnun, eins og FAO, OECD og Efnahagsráð Kyrrahafslanda. APEC, hefur það verið rætt hvort líta eigi á ókeypis fiskveiðiréttindi sem ríkisstyrki. Það á ekki hvað sízt við um kvóta sem land eða samtök kaupa af öðrum löndum og deilt er út til eigin fiskiskipa án endurgjalds. ESB hefur keypt og deilt út slíkum fiskveiðiréttindum án endurgjalds, meðal annars frá Marokkó og Mósambik. Einstaka sérfræðingar í alþjóðarétti og umhverfissamtök eins og WWF hafa fordæmt þessa styrki fyrir að leiða til ofveiði í þeim löndum og á þeim svæðum sem heimildirnar eru keyptar. Ókeypis kvótar til íslenzks sjávarútvegs eru af öðrum toga þar sem sú úthlutun leiðir fyrst og fremst til betri afkomu í fyrirtækjunum sem njóta þeirra, en leiðir tæpast til ofveiði innan eigin lögsögu, þar sem eftirlit er gott.

Skipanin með kvótaálagið er í viðskiptalegum skilningi stuðningur við íslenzka fiskvinnslu og útflutningsiðnaðinn fyrst vinnslan fær hráefnið á lægra verði en ella. Líkja má þessu fyrirkomulagi við þá skipan sem við höfðum áður í umdæmi Sölusamtaka sjómanna (Noregs Råfisklag), þegar verð á fiski til flökunar var lægra en á fiski sem var seldur ferskur. Þetta var ekki leyft lengur þegar fríverzlun með fisk innan EFTA komst á 1990. Sænsk og finnsk fyrirtæki fengu það samþykkt að þau ættu rétt á að fá fiskinn keyptan á sama verði og frystihúsin og því var hætt að vera með mismunandi fiskverð.

Lægra fiskverð

Verðlagning eftir ráðstöfun var sem sagt ekki leyfð samkvæmt þessu samkomulagi EFTA og það gildir áfram. Ég hefði haldið að íslenzka skipanin með kvótaálagið ætti að falla undir sama ákvæði. En svo lengi sem norskir fiskkaupendur eða kaupendur í öðrum samkeppnislöndum gera ekki athugasemdir verður álagið sjálfsagt áfram við lýði.

Úthlutun ókeypis aflaheimilda, það er að segja án auðlindagjalds, og kvótaálagið færir íslenzkum sjávarútvegi viðskiptalegt forskot. Hvort það kemur einnig þjóðinni sem heild til góða, en hún er lögunum samkvæmt eigandi auðlindarinnar, er á hinn bóginn ekki eins víst. Ef hinum aukna hagnaði sem sjávarútvegsfyrirtækin njóta vegna þessa fyrirkomulags er varið til fjárfestinga í arðbærum fyrirtækjum erlendis, er það gott, en ef Íslendingarnir leggja fé í vond fyrirtæki er það sóun. Fyrir efnahagslífið í samkeppnislöndunun, að Noregi meðtöldum, virkar íslenzka fyrirkomulagið, sem ég hef verið að fjalla um, samkeppnishamlandi í efnahagslegu tilliti. En eftir stendur að sjá hvort þetta fer í bága við alþjóðlega samninga innan ESB, EFTA, EES og WTO, sem Ísland er einnig aðili að. Það skýrist varla fyrr en einhver sér sér hagnað í því að hreyfa við málinu."