Kaup Steinunnar Jónsdóttur, dóttur Jóns Helga Guðmundssonar í BYKO, á tæplega 5% hlut í Íslandsbanka, vekja enn og aftur athygli á hluthafahópi bankans og þeim veikleikum sem í honum eru.

Kaup Steinunnar Jónsdóttur, dóttur Jóns Helga Guðmundssonar í BYKO, á tæplega 5% hlut í Íslandsbanka, vekja enn og aftur athygli á hluthafahópi bankans og þeim veikleikum sem í honum eru.

Töluverðar sviptingar urðu í hluthafahópnum fyrr á þessu ári og meðal þeirra sem komu inn í hóp helstu hluthafa eru félög tveggja stórra hluthafa, Helga Magnússonar og Orra Vigfússonar sem keyptu í febrúar. Félögin eiga annars vegar 71/2% og hins vegar 51/2% hlutafjár en hafa verið að leita að fleiri fjárfestum til að koma með sér að kaupum á hlutunum. Hætt er við að margir muni líta svo á að um framtíð þessara félaga í hluthafahópnum ríki óvissa þar til niðurstaða um þá leit verður kynnt.

Stærsti hluthafi Íslandsbanka er Milestone, félag Karls Wernerssonar, sem segir bréfin langtímafjárfestingu. Hlutur þess í bankanum er 12,3% og var hann keyptur í apríl með framvirkum samningi sem átti að renna út um miðjan þennan mánuð en hefur verið framlengdur fram á haust.

Meðal annarra af stærstu hluthöfum eru lífeyrissjóðir, sem hafa löngum verið stórir í bankanum. Lífeyrissjóður verzlunarmanna er þeirra stærstur með 71/2%. LSR var þar til fyrir skömmu í hópi stærstu hluthafa með nær 2% hlutafjár, en hann hefur nú selt stóran hluta. Lífeyrissjóður verzlunarmanna fékk fyrr á þessu ári tilboð í bréf sín en taldi tilboðið ekki nógu hátt. Síðan hefur verðið hækkað umtalsvert. LSR hefur verið virkari fjárfestir á markaði en flestir aðrir lífeyrissjóðir og sala LSR þarf þess vegna ekki að þýða að aðrir lífeyrissjóðir muni hugsa sér til hreyfings. Þó hlýtur að fara að verða umhugsunarefni fyrir þá hvenær verðið verður nægilega hátt.

Loks ber að nefna að meðal helstu hluthafa eru bræðurnir Benedikt og Einar Sveinssynir. Þeir eiga sameiginlega rúmlega 5% í bankanum og Einar er formaður bankaráðsins.

Sú óvissa sem ríkir um suma af stærri eignarhlutum í bankanum hlýtur að valda honum ákveðnum óþægindum. Sumir hafa til dæmis gert því skóna að þeir veikleikar kunni að vera ein skýring þess að Íslandsbanki hélt ekki áfram í keppninni um kaup á danska fjárfestingarbankanum FIH, sem KB banki keypti á dögunum eftir keppni við Landsbankann meðal annarra.

Þessi staða í hluthafahópnum skapar hins vegar líka möguleika fyrir fjárfesta sem vilja kaupa sig til áhrifa í bankanum og þar kann að vera komin skýringin á kaupum Steinunnar sem nefnd voru hér í upphafi. Þó að Steinunn sé kaupandi bréfanna fer ekki hjá því að litið sé á tengslin við föður hennar, enda er hann meðal umsvifamestu athafnamanna og fjárfesta landsins. Meðal eigna Jóns Helga er um 6% hlutur í KB banka, sem er um 15 milljarða króna virði. Væri þessum hlut til dæmis skipt fyrir hlut í Íslandsbanka miðað við núverandi gengi gæti Jón Helgi eignast um eða yfir 15% í þeim banka. Samanlagt hefðu hann og dóttir hans því um fimmtungshlut í bankanum og þar með afgerandi stöðu og gætu haft mikil áhrif þar; mun meiri en Jón Helgi hefur í KB banka þrátt fyrir að fjármálastjóri BYKO sitji þar í stjórn.

Engin leið er að fullyrða um hvað Jón Helgi ætlast fyrir en ljóst er að ýmsir telja að það verð sem Steinunn greiddi fyrir hlutinn í Íslandsbanka verði varla skýrt nema með því að hlutnum eigi að fylgja áhrif sem leiði til eflingar bankans. Íslandsbanki er ágætlega rekinn, en hægt er að hafa efasemdir um að honum muni takast að vaxa nægilega með óbreyttu eignarhaldi. Með minni óvissu í hópi fjárfesta, hvort sem það væri með aðkomu nýrra fjárfesta eða eflingu þeirra sem fyrir eru, má reikna með að vaxtarmöguleikar bankans myndu aukast og þar með ábati hluthafa.

Innherji@mbl.is