Sjóaðir sérfræðingar Pétur Einarsson er forstöðumaður Íslandsbanka í London þar  sem  byggð hefur verið  upp sérfræðiþekking í sjávarútvegi.
Sjóaðir sérfræðingar Pétur Einarsson er forstöðumaður Íslandsbanka í London þar sem byggð hefur verið upp sérfræðiþekking í sjávarútvegi.
ÞAÐ er ekki oft sem heyrist af því að íslenskir bankar séu ráðgjafar erlendra aðila í stórviðskiptum við íslensk fyrirtæki.

ÞAÐ er ekki oft sem heyrist af því að íslenskir bankar séu ráðgjafar erlendra aðila í stórviðskiptum við íslensk fyrirtæki. Það gerðist þó á dögunum þegar Íslandsbanki var ráðgjafi breska matvælafyrirtækisins Seachill Ltd sem seldi Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, SH, 80% hlut í fyrirtækinu fyrir 4,9 milljarða króna.

Pétur Einarsson, forstöðumaður skrifstofu Íslandsbanka í London, segir að það hafi verið hrein tilviljun að kaupandi fyrirtækisins sem þeir voru að vinna með í þetta skiptið, Seachill Ltd, hafi verið íslenskur. "Seachill talaði við okkur eftir að SH hafði haft samband við þá, en í raun var fyrirtækið ekki til sölu þá. Seachill leitaði til okkar vegna reynslu okkar af ráðgjöf til aðila í sjávarútvegi en Íslandsbanki er sá íslenski banki sem hefur sérhæft sig hvað mest í þjónustu við þessa atvinnugrein," segir Pétur Einarsson.

Fleiri samningar í deiglunni

Hann segir að Íslandsbanki í London sé að vinna í mörgum svipuðum verkefnum þessa dagana á alþjóðlegum vettvangi og von sé á því að bankinn ljúki við fleiri viðlíka samninga á næstunni. "Okkar helstu starfssvæði utan Íslands eru Noregur og Kanada. Þar erum við mest að vinna í frumútgerð og frumvinnslu í greininni, en í Bretlandi og Danmörku komum við meira að fyrirtækjum í vinnslu og sölu á sjávarafurðum."

Á skrifstofunni í London eru alls 12 manns en átta starfa við svokallaða fyrirtækjaþróun sem vinnur að verkefnum eins og Seachill-SH verkefninu. "Við höfum byggt upp alþjóðlegt tengslanet í þessari atvinnugrein og það eru engir aðilar aðrir sem hafa gert það með sama hætti."

Spurður segir Pétur að eftirspurn sé talsverð eftir þjónustu fyrirtækjaþróunarinnar. "Það er mikið hringt í okkur, en þegar við vorum að byrja þá vorum við meira í að banka upp á hjá öðrum. Það er nú breytt."

Pétur segir að í London sé fyrst og fremst veitt ráðgjöf varðandi eignabreytingar, en á Íslandi fari fram viðskiptastjórnunin og öll lánastarfsemin. Pétur segir aðspurður að mjög algengt sé að auk ráðgjafar þá sinni Íslandsbanki einnig fjármögnun í þeim eignabreytingarverkefnum sem unnin eru. "Það getur vel verið að við komum að langtímafjármögnun í þessu SH-verkefni líka. Vöxtur Íslandsbanka í útlánum hefur að miklu leyti verið til alþjóðlegra fyrirtækja."

Pétur segir að heilmikið sé að gerast í Evrópu á sjávarútvegssviðinu, mikil samþjöppun eigi enn eftir að eiga sér stað þar sem margir smáir aðilar séu enn á markaðnum.

Hann segir að í Bretlandi sé umhverfið mjög spennandi fyrir fjármálafyrirtæki eins og Íslandsbanka. Þar sé mikil hefð fyrir eignabreytingum, auk þess sem London sé ein mesta fjármálamiðstöð í heimi. "Ef við sjáum ekki vaxtartækifæri fyrir bankann í Bretlandi þá veit ég ekki hvar annars staðar við ættum að sjá þau," segir Pétur Einarsson að lokum.