Skýr sýn Helsti kostur Þórðar er sagður vera  skýr  sýn á markmiðið sem stefnt sé  að, að hann missi ekki sjónar á takmarkinu og villist því síður af leið.
Skýr sýn Helsti kostur Þórðar er sagður vera skýr sýn á markmiðið sem stefnt sé að, að hann missi ekki sjónar á takmarkinu og villist því síður af leið. — Morgunblaðið/Eggert
Þórður Már Jóhannesson er forstjóri Straums Fjárfestingarbanka. Bjarni Ólafsson bregður upp svipmynd af Þórði.

Hann er viðskiptafræðingur að mennt, fæddur inn í mikla knattspyrnuætt á Skaganum og er forstjóri þess fjármálafyrirtækis á landinu sem er í einna örustum vexti um þessar mundir. Þórður Már Jóhannesson starfaði frá 1997 til 2001 hjá Kaupþingi sem yfirmaður innlendrar hlutabréfamiðlunar. Hann hóf störf hjá Fjárfestingarfélaginu Straumi hf. 2001, sem um síðustu áramót varð að Straumi Fjárfestingarbanka. Straumur hefur á þeim tíma vaxið úr því að vera um þriggja milljarða fyrirtæki í að vera um 30 milljarða fyrirtæki. Þórður hefur m.a. setið í stjórn Kers hf. (áður Olíufélagið hf.) og SH.

"Eins og menn vita var Straumur lengst af fjárfestingarfélag sem varð til með umbreytingu hlutabréfasjóðs. Rétt fyrir síðustu áramót fékk Straumur hins vegar leyfi Fjármálaeftirlitsins til að stunda almenna lánastarfsemi og var nafni fyrirtækisins breytt í kjölfarið," segir Þórður. "Það sem nú er framundan hjá Straumi er frekari sókn bankans og vöxtur í fyrirtækja- og lánaþjónustu, þótt ekki standi til að breyta bankanum í almennan viðskiptabanka."

Eins og sagt hefur verið frá í fréttum stóð bankinn fyrir vel heppnuðu skuldabréfaútboði fyrr í sumar og gaf þá út skuldabréf að andvirði um fjóra milljarða og er féð einmitt ætlað til frekari uppbyggingar og vaxtar Straums fjárfestingarbanka.

Aðferðir leikstjórnandans

Vinir Þórðar og samstarfsmenn, sem haft var samband við, voru á einu máli um að hans helsti styrkur væri að hann hefði skýra sýn á markmiðið sem stefnt væri að. Að hann missti ekki sjónar á takmarkinu og villtist því síður af leið.

"Þetta er að minnsta kosti það sem ég hef reynt að gera við uppbygginguna á Straumi," segir Þórður.

Einn vinur Þórðar vildi skýra atferli hans með vísan til knattspyrnuarms fjölskyldunnar.

"Þórður hefur náð að færa aðferðafræði, sýn og einbeitni leikstjórnandans yfir á viðskiptalífið." Annar sagði Þórð eiga auðvelt með að vinna með fólki og að fá fólk til að vinna fyrir sig. "Hann er húmoristi sem viðheldur léttu andrúmslofti í kringum sig."

Þórður hlær við þegar þessi ummæli eru borin undir hann. "Þetta er afskaplega fallega sagt," segir Þórður. "En það er engu að síður rétt að mér hefur tekist að fá til starfa hjá Straumi hóp afar hæfileikaríks fólks sem starfar vel saman að sameiginlegum markmiðum bankans."

Þórði hefur einnig verið lýst sem kraftmiklum manni sem töluvert gusti af. "Það fer ekki framhjá neinum þegar hann kemur á vettvang eða lætur heyra í sér. Þórður er heill karakter, enginn laumupúki, og er vinur vina sinna þegar á reynir," lét einn vina hans hafa eftir sér.

"Vonandi er eitthvað til í þessu," segir Þórður. "Ég trúi meira á aðgerðir en orð, og get því kannski virkað svona á fólk. En menn vita líka hvar ég stend og hvar þeir hafa mig."

Helsta áhugamálið

Eiginkona Þórðar er Nanna Björg Lúðvíksdóttir og eiga þau tvö börn, dreng og stúlku, auk þess sem fimmti fjölskyldumeðlimurinn er á leiðinni, en Nanna Björg er ófrísk. Aðspurður segist Þórður ekki vita hvort hann eigi von á syni eða dóttur. "Ég vil ekki vita hvað framtíðin ber í skauti sér í þessum efnum, og tel það best að taka einn dag fyrir í einu."

Vinir Þórðar höfðu allir á orði hve mikill fjölskyldumaður hann væri og sjálfur segir hann fjölskylduna vera sitt helsta áhugamál. "Maður verður að reyna að ná einhverju jafnvægi milli fjölskyldulífs og vinnu," segir Þórður. "Þegar maður er að byggja upp fyrirtæki eins og Straum er maður náttúrlega alltaf í vinnunni, kvölds og morgna. Ég reyni hins vegar að stýra vinnutímanum eins og ég get til að eiga meiri tíma með fjölskyldunni."

Önnur áhugamál Þórðar eru mörg og margvísleg. "Á sumrin fer ég í laxveiði og á veturna fer ég í hálendisferðir á vélsleðum," en vélsleðaáhugann fékk Þórður þegar hann vann sem leiðsögumaður og fór með erlenda ferðamenn upp á hálendið. Þá er hann mikill áhugamaður um íslenska knattspyrnu og heldur að sjálfsögðu með ÍA.

bjarni@mbl.is