STÝRIVEXTIR Seðlabanka Íslands munu verða 7,25% í árslok, ef marka má spá Landsbanka Íslands, Íslandsbanka og KB banka. Landsbanki og Íslandsbanki spá því að um mitt næsta ár muni stýrivextirnir fara í 8%. Gangi þetta eftir mun Seðlabankinn hækka vexti um 1,0 prósentustig á næstu fimm mánuðum og um 1,75 prósentustig á næstu tólf mánuðum en stýrivextir eru nú 6,25%.
Íslandsbanki telur að næsta hækkun verði í september og muni nema 25 til 50 punktum, Landsbankinn spáir 50 punkta hækkun og KB banki 30 punktum.
Einkaneysla enn mikil
Íslandsbanki birti í gær endurskoðaða spá um þróun stýrivaxta þar sem því er spáð að stýrivextir fari í 8% um mitt næsta ár en fyrri spá hljóðaði upp á 7,5%.Guðbjörg Anna Guðmundsdóttir hjá greiningardeild Íslandsbanka segir að mikil einkaneysla og fjárfestingar ásamt aukinni verðbólgu hvetji Seðlabankann til vaxtahækkana um þessar mundir. " Auk þess hafa áætlanir um aðhald í ríkisfjármálum ekki gengið eftir og þess vegna hvílir hagstjórn enn þyngra á herðum Seðlabankans."
Guðbjörg segir stöðuna á vinnumarkaði hins vegar vinna á móti þessu. "Fyrirtækin virðast enn halda að sér höndum hvað varðar mannaráðningar þrátt fyrir mikil efnahagsumsvif. Atvinnuleysi hefur því ekki minnkað eins mikið og vænst var. Trú neytenda á efnahagslífið virðist líka hafa minnkað að undanförnu."
Hækkun dugar á verðbólgu
Landsbanki Íslands spáði því í maí sl. að Seðlabankinn hækkaði stýrivexti í 8% um mitt næsta ár. Edda Rós Karlsdóttir, forstöðumaður greiningardeildar Landsbankans, segir þá spá óbreytta. "Hækkun stýrivaxta kemur í veg fyrir að eftirspurn aukist of mikið og hindrar þannig að verðbólgan fari af stað." Hún segist eiga von á að þungi hagstjórnar í landinu muni á næstu mánuðum hvíla á peningamálum og þar af leiðandi Seðlabankanum. "Við gerum ráð fyrir að ríkissjóður verði nálægt jafnvægi en ekki að mikill afgangur verði af ríkisrekstrinum sem geti dregið merkjanlega úr þenslu. Hækkun stýrivaxta, ásamt jafnvægi í ríkisfjármálum, mun væntanlega duga til að halda verðbólgunni í skefjum í þeirri uppsveiflu sem framundan er. Miklu skiptir að aðstæður á vinnumarkaði eru ólíkar því sem við höfum áður séð. Slakinn er þar meiri en hann virðist við fyrstu sýn."
Minni þensla á næstunni
KB banki segir ekki fyrir um þróun stýrivaxta fram á næsta ár en gerir ráð fyrir 7,25% við árslok. Ásgeir Jónsson hjá greiningardeild bankans segir óvissuþættina marga og fara mikið eftir væntingum neytenda."Seðlabankinn er að miklu leyti að bregðast við miklum hækkunum á fasteignamarkaði og miklum vexti einkaneyslu," segir Ásgeir og bendir á að þetta sé í fyrsta skipti sem stýrivaxtahækkanir eigi sér stað á sama tíma og talsvert atvinnuleysi ríki.
Hann segir vöxt einkaneyslu ekki geta haldið áfram nema með vexti kaupmáttar. Hún sé að mestu drifin af væntingum og gengishagnaði af eignamarkaði. "Ef atvinnuvegafjárfesting tekur ekki við sér í haust er erfitt að sjá fyrir sér mikla þenslu á næstunni. Laun hafa ekki hækkað mikið og enn er gífurlegt atvinnuleysi, þannig að verðbólgan er enn mjög einangruð við fasteignamarkaðinn."