LENGI framan af komu allir demantar frá Indlandi, en menn voru farnir að grafa upp demanta þar á fjórðu öld fyrir Krist. Framleiðslugeta var lítil, og voru demantar því afskaplega sjaldgæfir og fór verðið eftir því.

LENGI framan af komu allir demantar frá Indlandi, en menn voru farnir að grafa upp demanta þar á fjórðu öld fyrir Krist. Framleiðslugeta var lítil, og voru demantar því afskaplega sjaldgæfir og fór verðið eftir því. Að indverskum sið giltu mjög strangar reglur um það hvernig lita demanta fólk mátti eiga, og fór það eftir því hvaða stétt það tilheyrði. Fólk af æðstu stétt, Brahmin, mátti eiga tæra og hvíta demanta, en fólk í neðstu þrepum samfélagsins mátti aðeins eiga gráa eða svarta demanta. Konungar voru svo þeir einu sem máttu eiga demanta í öllum regnbogans litum.

Brasilískir steinar

Svipaða sögu má segja af evrópskum aðli. Um miðja þrettándu öld skipaði franski konungurinn og krossfarinn Lúðvík níundi svo fyrir að enginn mætti eiga demanta sem ekki væri konungur. Eftir því sem framboð á demöntum jókst var slakað á slíkum höftum. Fyrsta miðstöð demantaverslunar og -slípunar í Evrópu var í Feneyjum um miðja fjórtándu öld en strax um 1460 voru flæmsku borgirnar Brugge og Antwerpen mikilvægar á þessu sviði.

Verð á demöntum lækkaði ekki að ráði fyrr en um 1730 þegar demantar fundust í Brasilíu. Jókst framboð þá svo mikið og svo hratt að verð á demöntum hrundi. Um þetta leyti fóru demantar að sjást á barmi og í eyrum efnakvenna í Evrópu þótt ekki væru þær aðalbornar.

Stofnun auðhrings

Næsta stóra byltingin í demantaiðnaði hófst þegar hinn fimmtán ára gamli Erasmus Jacobs fann glæran stein í árfarvegi á landareign föður síns í S-Afríku. Fljótlega þustu á svæðið alls kyns náma- og ævintýramenn sem vildu gerast ríkir á demantaæðinu. Einn þeirra var hinn breski Cecil Rhodes, en árið 1888 sameinaði hann allar helstu demantanámur í landinu á eina hendi og var það upphaf demantarisans De Beers. Erfitt er að útskýra hve mikil áhrif demantagröfturinn hafði á framboð á demöntum í heiminum. Fram að þeim tíma höfðu e.t.v. verið framleidd milli 50.000 og 100.000 karöt á ári, en framleiðsla s-afrískra demantanáma fór fljótlega upp fyrir eina milljón karata á ári. Verðið féll þó ekki jafnskarpt og það hafði gert árið 1730 af tvennum orsökum. Annars vegar náðu demantaframleiðendur í S-Afríku, með Rhodes í broddi fylkingar, samkomulagi um stýrt framboð á demöntum sem ætlað var að hámarka gróða þeirra. Hins vegar hafði almenningur á Vesturlöndum, og Bandaríkjunum sérstaklega, miklum mun meira fé milli handa en áður og eftirspurn eftir stöðutáknum eins og demöntum jókst mjög.

Á síðustu hundrað árum hefur framleiðsla á demöntum aukist gríðarlega og er nú um 120 milljónir karata, eða um 120 tonn á ári. Þótt verð sé enn mjög hátt er sá tími liðinn sem demanturinn var aðeins á færi konunga að eignast.