UM áttatíu prósent allra demanta sem grafnir eru úr jörðu eru notaðir í iðnaði. Magn gervidemanta, eða ræktaðra demanta, er fjórum sinnum meira og samtals er um að ræða 500 milljón karöt, eða um 500 tonn af iðnaðardemöntum á ári. Samkvæmt upplýsingum frá jarðfræðistofnun Bandaríkjanna var meðalverð á iðnaðardemöntum, náttúrulegum sem tilbúnum, árið 2002 14,5 Bandaríkjadalir karatið, þótt almennt fáist töluvert hærra verð fyrir náttúrulega demanta en ræktaða. Heildarverðmæti ársframleiðslu heimsins er því um 7,25 milljarðar Bandaríkjadala, eða um 515 milljarðar íslenskra króna á ári.
Þrýstingur og hiti
Þótt menn hafi gert sér grein fyrir því allt frá árinu 1796 að demantar væru myndaðir úr frumefninu kolefni var það ekki fyrr en árið 1953 sem vísindamönnum tókst fyrst að framleiða demantakristala úr hreinu grafíti. Var það hópur sænskra vísindamanna í Stokkhólmi sem fyrstur náði þeim áfanga. Þar til fyrir skömmu voru General Electric og De Beers stærstu framleiðendur iðnaðardemanta, en GE seldi demantaframleiðslufyrirtæki sitt í fyrra. Þessi tvö fyrirtæki voru einmitt sökuð um að hafa haft ólöglegt samráð um verð á iðnaðardemöntum.Til að framleiða demanta þarf mikinn þrýsting, háan hita og rétta efnahvata. Grafít er hitað upp í þrýstiklefa þar til það leysist upp og binst efnahvötum, oftast járni eða kóbalti, uns það sest á kaldari botn þrýstiklefans, þá umbreytt í demanta. Oft er smáum demantskristöllum sáð á botn klefans til að flýta fyrir og sest nýi demanturinn þá á þann gamla.
Demantaörgjörvar
Eftir því sem tækni til demantaframleiðslu batnar og framleiddir demantar verða ódýrari og betri að gæðum, eykst notagildi þeirra. Í dag eru iðnaðardemantar aðallega notaðir til að skera og slípa önnur efni, en í nánustu framtíð er hugsanlegt að demantar verið notaðir í allt frá sjónaukalinsum í nýjustu gerð tölvukubba. Á vefsíðu bandaríska náttúrusögusafnsins er því t.d. velt upp að hægt væri að nota demanta við gerð þrívíðra örgjörva sem hefðu margfalda reiknigetu á við þá örgjörva sem við þekkjum nú. Það er einkum sá eiginleiki demantsins að þola mikinn hita sem gerir hann spennandi í augum örgjörvahönnuða.Þá er hugsanlegt að demantar verði notaðir sem hlífar yfir alls konar innrauða geisla, hvort heldur sem væri á einkatölvum eða leysigeislastýrðum sprengjum. Jafnvel er mögulegt að demantur taki við af venjulegu gleri sem efni í hlífar yfir armbandsúrum. Það er þó að sjálfsögðu háð verði og gæðum á demöntum.