[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Miklar hræringar hafa orðið í heimsverslun með demanta og virðist De Beers vera að missa tökin á markaðnum. Bjarni Ólafsson stiklar á stóru um þróun verslunarinnar og framtíð.

Það vakti nokkra athygli í síðustu viku þegar demantarisinn De Beers gekkst við ásökunum um hringamyndun og náði sátt við saksóknara í Bandaríkjunum um greiðslu tíu milljóna bandaríkjadala (um 700 milljóna íslenskra króna) í sekt. Mun fyrirtækið nú geta starfað milliliðalaust í Bandaríkjunum, og stjórnendur þess stigið á bandaríska grund í fyrsta skipti í um sextíu ár. Fyrsta málið af þessu tagi var höfðað á hendur fyrirtækinu skömmu eftir seinna stríð, en málið sem nú var sætt var höfðað fyrir tíu árum gegn De Beers og stórfyrirtækinu General Electric. Á sínum tíma neitaði De Beers að mæta fyrir dómi og afhenti ekki skjöl og gögn sem saksóknarar höfðu krafist að fá í hendur. Af þeim sökum var ekki hægt að sanna sekt GE og fyrirtækið því sýknað.

Breska tímaritið The Economist gerir De Beers og ástandið í demantaverslun heimsins að umfjöllunarefni í nýjasta tölublaði sínu. Kemur þar fram að De Beers, sem stofnað var í Suður-Afríku árið 1888, hélt lengst af einokunarstöðu sinni, bæði vegna þess að það átti, beint eða óbeint, stóran hluta virkra demantanáma í heiminum, og einnig vegna þeirrar stefnu að kaupa upp alla óslípaða demanta sem birtust á heimsmarkaðnum.

Sú stefna sverti mjög ímynd fyrirtækisins út á við vegna þess að stór hluti af þeim demöntum sem keyptir voru utan að voru svokallaðir stríðsdemantar, eða demantar notaðir voru til að fjármagna vopnuð átök í ríkjum Afríku. Er De Beers því sakað um að hafa með beinum eða óbeinum hætti fjármagnað stóran hluta þeirra stríða sem háð hafa verið í þessum heimshluta frá lokum seinni heimsstyrjaldar. Fyrirtækið hefur hins vegar varið þessa stefnu með því að vísa til þess að án hennar væri verslun með demanta stjórnlaus og verð á gimsteinunum myndi hrapa.

Refsað fyrir óhlýðni

Framan af stjórnaði fyrirtækið milli 80% og 90% af heimsverslun með demanta. Allir demantar sem framleiddir eru undir stjórn De Beers, eða komast í hendur fyrirtækisins, eru fluttir til Lundúna og flokkaðir. Þaðan eru þeir fluttir til milliliða og slípara. Ekki eru allir demantar þó seldir strax að flokkun lokinni, heldur skammtar De Beers demantana varlega til að passa upp á ekki verði offramboð og til að viðhalda þeirri ímynd að demantar væru sjaldgæfari - og því verðmætari - en þeir eru í raun. Það fyrirkomulag sem fyrirtækið kom upp og var til skamms tíma allsráðandi á markaðnum, var að sölumaður De Beers kom til heildsala eða slípara með kassa af demöntum. Þurfti viðkomandi að kaupa allan kassann á því verði sem De Beers setti upp eða hafna kaupum. Engar viðræður voru leyfðar og þurftu menn að sætta sig við þá steina sem þeim voru skammtaðir. Reyndu slíparar að útvega steina með öðrum hætti var þeim refsað af De Beers með því að í næstu sendingu fengu þeir færri eða verri steina.

Innanríkisslípun

The Economist fjallar einnig um tilvistarkreppu De Beers, en á undanförnum sex árum hefur markaðshlutdeild fyrirtækisins hrapað í 55% og alls kyns hættur steðja nú að einokunarkerfi því sem De Beers hefur lengi haldið uppi.

Meðal þess sem til kemur er breytt afstaða sumra ríkja þar sem De Beers hefur demantanámur sínar, eins og fréttabréf IDEX, alþjóðlegu demantakauphallarinnar, greinir frá. Eins og áður segir hefur De Beers ætíð flutt alla óslípaða demanta til Lundúna, en nú vilja ríki eins og Botswana, sem er stærsta einstaka demantaframleiðsluríki heims, að demantar sem grafnir eru þar úr jörðu verði flokkaðir og slípaðir þar í landi.

Missi De Beers með þessum hætti það miðstýringarvald sem fyrirtækið hefur haft er stjórn þess á einokunarversluninni líklega úr sögunni.

Í greinum The Economist og IDEX er þessi þróun í átt til meira sjálfstæðis einstakra ríkja gagnvart De Beers meðal annars rakin til Ísraelsmannsins Lev Levievs.

Fyrir fimmtán árum var Leviev þekktur demantaslípari og þurfti eins og aðrir að sætta sig við söluaðferðir De Beers. Er hann sagður að hluta rekinn áfram af löngun til að ná sér niðri á einokunarrisanum. Um miðjan níunda áratuginn komu aðilar frá Sovétríkjunum að máli við Leviev um að hann tæki að sér að byggja upp sovéskan demantaslípiiðnað. Hann tók glaður við verkinu, en setti það skilyrði að slípiverksmiðjurnar tækju aðeins við rússneskum demöntum. Með þessu kom hann tvöföldu höggi á De Beers. Annars vegar hættu rússneskir demantar að flæða inn í einokunarveldi fyrirtækisins og hins vegar missti fyrirtækið þann markað sem það hafði haft í Rússlandi fyrir óslípaða demanta. Þegar Sovétríkin liðuðust í sundur stóð Leviev uppi sem eini eigandi Alrosa-slípiverksmiðjanna rússnesku.

Þegar demantar fundust í Kanada var svipuð leið farin og í Rússlandi og nýlega drógu ástralskir demantaframleiðendur sig út úr De Beers-sölukerfinu. Demantarnir sem grafnir eru úr jörðu í Rússlandi, Ástralíu og Kanada eru samtals um 40% af heimsversluninni, og er De Beers því mikill missir af þessum viðskiptum. Rétt er þó að geta þess að De Beers á í einhverjum viðskiptum við aðila í Kanada, en stærstur hluti demanta sem þar eru grafnir upp er seldur utan við sölukerfi fyrirtækisins.

Þá sagði ríkisstjórn Angóla upp samningum við De Beers fyrir skömmu og gaf Leviev leyfi til námagraftrar gegn því að demantarnir væru slípaðir í Angóla. Vegna áðurnefndrar stefnu De Beers um að kaupa alla óslípaða demanta á markaðnum höfðu UNITA-skæruliðar, sem lengi börðust gegn stjórnvöldum í Angóla, selt fyrirtækinu mikið magn demanta og fór það eðlilega fyrir brjóstið á ríkisstjórn landsins. Nú þegar UNITA er á bak og burt og aðeins hefur liðkast um á demantamarkaðnum gripu stjórnvöld í Angóla tækifærið og hefndu sín á De Beers.

Grjótið einskis virði

Af öllu ofansögðu má vera ljóst að undanfarin tíu til fimmtán ár hafa tennurnar verið dregnar hver af annarri úr skolti hins suður-afríska ljóns, og hefur Leviev verið einna iðnastur við tanndráttinn, en menn hafa t.d. tengt yfirlýsingu Botswana um áhuga á að slípun fari fram innan landamæra ríkisins við ræðu sem Leviev hélt um sama efni ekki alls fyrir löngu.

Þær grundvallarbreytingar á demantaversluninni, sem hér hafa verið tíundaðar, eru af mörgum taldar ástæður þess að De Beers gerði áðurnefnda dómsátt í Bandaríkjunum. Rúmlega helmingur allra demanta í gimsteinaflokki er seldur í Bandaríkjunum og sé einokunarveldi De Beers að hruni komið verður fyrirtækið að koma sér vel fyrir á þessum mikilvæga smásölumarkaði. Hvað varðar afleiðingar breytinganna eru skoðanir skiptar. Sumir sérfræðingar telja nú loksins grundvöll kominn fyrir raunverulegri frjálsri samkeppni í heildverslun með demanta og að verð á demöntum muni hrynja innan skamms. Aðrir benda á að það komi engum demantaframleiðanda vel að eyðileggja alveg sölu- og dreifingarkefi De Beers - hrynji markaðsverð á demöntum tapi þeir allir. Þess vegna séu allar líkur til þess að í stað einokunar komi hringur demantaprinsa sem í sameiningu reyni að stjórna verði á demöntum - eins konar OPEC-samtök demantaheimsins. Slíkt kerfi er þó töluvert brothættara en raunverulegt einokunarkerfi, því sú freisting er alltaf fyrir hendi fyrir einstaka aðila að lækka verð á sinni framleiðslu um nokkrar krónur og græða mikið. Það er því erfitt að spá fyrir um framtíðina á þessum markaði eins og öðrum. Er það í raun spurning hvort skammtímagræðgi demantaprinsanna verður langtímagræðginni yfirsterkari.

Tilhugsunin um að verð á demöntum verði frjálst er flestum demantaframleiðendum samt óhugnanleg. Blaðamaður s-afríska viðskiptablaðsins Business Report segir frá því þegar hífaður stjórnarmaður De Beers tók hann afsíðis og sagði: "Þegar litla konan í Tókýó horfir á 20.000 dollara grjótið á fingri sínum og gerir sér grein fyrir því að það er einskis virði, þá erum við í raunverulegum vandræðum." Málið er nefnilega að demantur sem seldur er fyrir hundruð þúsunda króna út úr skartgripabúð er ekki nema nokkurra þúsunda króna virði sem iðnaðarvara. Þeim tugum þúsunda sem lagðar eru ofan á er haldið uppi af goðsögninni um að demantar séu eilífir.

bjarni@mbl.is