Konur eiga ekki sérlega auðvelt uppdráttar í ítölsku viðskiptalífi. Líkt og á öðrum sviðum þjóðlífs þar í landi eru karlar ráðandi, enda margir sem telja að konum sé hollast að halda sig heima og sjá um börn og bú.

Konur eiga ekki sérlega auðvelt uppdráttar í ítölsku viðskiptalífi. Líkt og á öðrum sviðum þjóðlífs þar í landi eru karlar ráðandi, enda margir sem telja að konum sé hollast að halda sig heima og sjá um börn og bú.

Þegar undirrituð sat á skólabekk í ítölskum viðskiptaháskóla fyrir nokkrum árum útskýrði einn lærimeistarinn, afar kraftmikil kona, það fyrir nemendum hvers vegna konur næðu síður að klifra upp metorðastigann innan fyrirtækja í landinu.

Hún tjáði okkur að hjá fjölskyldureknum fyrirtækjum (sem eru fleiri á Ítalíu en víðast hvar annars staðar) væri það mikið kappsmál að halda eigninni innan fjölskyldunnar. Eigendur rótgróinna og gamaldags fjölskyldufyrirtækja teldu það öruggara að eftirláta sonum, sonarsonum, dóttursonum og frændum eftir að stýra fyrirtækjum og setjast í stjórnir þeirra af þeirri ástæðu að karlarnir halda nafni ættarinnar á lofti en konurnar ekki. Ástæðan fyrir því að konur eru ekki taldar geta haldið því á lofti er sú að þær taka oft upp ættarnöfn eiginmanna sinna. Setjist þær við stjórnvölinn er þannig hætta á að eftir nokkrar kynslóðir sé fyrirtækið komið í hendurnar á fólki með annað ættarnafn. Þess vegna sé það algengt að konur séu keyptar út úr fjölskyldufyrirtækjum.

Á síðustu árum og áratugum hefur margt verið að breytast í ítölsku viðskiptalífi. Konur hafa látið meira að sér kveða, stofnað fyrirtæki og brotist til metorða hjá stórfyrirtækjum. Engu að síður er Ítalía langt á eftir öðrum Evrópuþjóðum þegar fjöldi kvenna í stjórnum stórfyrirtækja er skoðaður. Þetta kemur fram í niðurstöðum könnunar sem European Professional Women's Network, EPWN, gerði og birtar voru í júní.

Í samantekt á þessum niðurstöðum er Ítalía sérstaklega tekin fyrir sem það Evrópuland sem standi verst að vígi þegar kemur að stjórnarsetu kvenna. Hlutfall kvenna í stjórnum 15 stærstu fyrirtækja landsins er 2,2%, sem í niðurstöðunum er sagt vera "það lægsta í Evrópu." Einungis tvö af 15 stærstu fyrirtækjunum hafa a.m.k. eina konu í stjórn.

Könnunin tekur til ríflega 200 stærstu fyrirtækja Evrópu. Samkvæmt niðurstöðunum sitja konur í 8% stjórnarsæta hjá þessum fyrirtækjum. Noregur og Svíþjóð koma sem fyrr best út en Ítalía, Belgía, Spánn og Danmörk reka lestina. Þessi fjögur lönd eru þau einu sem hafa undir 5% stjórnarsæta skipuð konum.

Í þennan skussaflokk mætti bæta Íslandi. Eftir því sem fram kemur í þessari könnun er hlutfallið á Ítalíu það lægsta í Evrópu. Hefðu íslensk fyrirtæki hins vegar verið tekin með hefðu Ítalir sannarlega ekki þurft að vera einmana í neðsta sætinu.

Eins og Viðskiptablað Morgunblaðsins hefur greint frá sitja tvær konur í stjórnum þeirra 15 fyrirtækja sem eru í Úrvalsvísitölunni. Hlutfallið hérlendis er því 2,3% og lækkaði úr 5,3% í fyrra. Í könnun EPWN hefði Ísland því leikandi komist í skussaflokkinn því samkvæmt niðurstöðunum er íslenskt viðskiptalíf á svipuðum slóðum og ítalskt.

Það er svo sannarlega leiðum að líkjast að vera á sama báti og Ítalía þegar kemur að stjórnarsetu kvenna. Fyrir það fyrsta er atvinnuþátttaka kvenna á Ítalíu í kringum 40%, eða með því lægsta sem gerist í Evrópu. Á því sviði er Ítalía á sama stigi og Grikkland og Spánn en í þessum þremur löndum er atvinnuþátttaka karla í kringum 70% en kvenna um 40%.

Óvíða er atvinnuþátttaka, jafnt karla og kvenna, hins vegar meiri en á Íslandi. Atvinnuþátttaka karla síðustu ár hefur verið um og yfir 80% og atvinnuþátttaka kvenna í kringum 45%.

Nú er alls ekki ætlunin að fara niðrandi orðum um ítalskt viðskiptalíf eða Ítali almennt, enda vænsta fólk upp til hópa. Það breytir ekki því að almennt séð hafa kraftar kvenna ekki verið nýttir utan heimila á Ítalíu í sama mæli og í öðrum Evrópulöndum. Smám saman er þetta að breytast, ítalskar konur eru farnar að mennta sig meira og hafa á allra síðustu árum sótt verulega í sig veðrið í frumkvöðlastarfsemi. Eftir sem áður er ekki hlaupið að því fyrir konur á Ítalíu að ná framgangi innan fyrirtækja, hvað þá setjast í stjórnir þótt þær hafi alla burði til.

Eitt af því sem verður til þess að kraftar kvenna nýtast síður á Ítalíu er leikskólaskortur. Margir líta svo á að konur geti einfaldlega gjört svo vel og hætt að vinna þegar þær eignast börn. Móðir í fullri vinnu hljómar nánast eins og þversögn í eyru Ítala, einkanlegra þeirra sem eldri eru.

Þótt þessi fornu viðhorf heyrist við og við hér á landi þá er ekki hægt að líkja aðstæðum kvenna á íslenskum vinnumarkaði við þær sem ríkja á þeim ítalska. Á Íslandi er gert ráð fyrir því að bæði karlar og konur vinni utan heimilis og skapaðar aðstæður til að svo megi vera. Einmitt þess vegna er það svo skrýtið að fyrirtæki nýti ekki krafta þeirra í auknum mæli.

Er það eðlilegt að svo fáar konur gegni því mikilvæga eftirlitshlutverki með viðskiptalífinu sem það er að vera stjórnarmaður í stórfyrirtæki á Íslandi? Er það eðlilegt að hluthöfum íslenskra stórfyrirtækja reynist jafnörðugt og hluthöfum ítalskra fyrirtækja að koma auga á krafta kvenna og hæfileika? Auðvitað ekki. Auðvitað eigum við að vera komin miklu lengra í þessum efnum. Það er kominn tími til að hluthafar í íslenskum fyrirtækjum átti sig á því að það borgar sig að nýta atorku kvenna.

Það hlýtur alltaf að borga sig að hafa úr stærri hópi en minni að moða þegar valið er í stjórnir, enda gegna þær sífellt stærra hlutverki við eftirlit með starfsemi fyrirtækja.

Lengi hefur verið í tísku að líkja viðskiptalífinu við íþróttir. Einhvers konar venja hefur skapast fyrir því að líkja samkeppni á markaði við keppni í íþróttum. Þetta er ágæt venja sem vert er að halda við:

Gefum okkur að íslenska þjóðin væri tvöfalt fjölmennari en hún er, um það bil sex hundruð þúsund í stað þeirra tæpu þrjú hundruð þúsunda sem við teljum nú. Gefum okkur einnig að hlutfallslega jafnmargir kepptu í sundi og nú gera. Í stað þess að 30 manns berðust um sæti á Ólympíuleikunum miðað við hina "einföldu" þjóð væru 60 sem berðust um jafnmörg sæti hjá "tvöföldu" þjóðinni.

Flestir hljóta að geta samþykkt að töluverðar líkur eru á að tvöföldu Íslendingarnir stæðu sig betur í sundinu en þeir einföldu þar sem þeir fyrrnefndu gætu nýtt krafta fleira úrvalssundfólks.

Þetta er eitthvað sem hluthafar og stjórnendur hjá íslenskum fyrirtækjum hafa ekki alveg kveikt á, ekki frekar en hjá ítölskum fyrirtækjum. Hlutfall kvenna í stjórnum íslenskra Úrvalsvísitölufyrirtækja er sorglega lágt og ber vott um að hluthafar hvorki sjái né heyri í konunum sem standa utan við karlahópinn. Sem betur fer fjölgar stöðugt í þeim hópi kvenna sem vill sjást og láta í sér heyra. Við sem horfum á verðum að binda vonir við að þær nái að brjóta á bak aftur það "ítalska ástand" sem nú ríkir á þessu sviði. Það getur ekki verið að í hinu nútímalega íslenska viðskiptaumhverfi sé það talið ásættanlegt að vera í flokki með þeirri Evrópuþjóð sem vermir neðsta sætið, bæði hvað varðar atvinnuþátttöku kvenna og stjórnarsetu. Geta íslensk fyrirtæki ekki gert betur?

eyrun@mbl.is