Ríkisstyrkir Ólíklegt er að eining skapist um úthlutun.
Ríkisstyrkir Ólíklegt er að eining skapist um úthlutun.
ESB hefur kynnt hugmyndir um nýja skipan fjárveitinga til sjávarútvegs aðildarlanda sinna. Þessi skipan á að taka til áranna 2007 til 2013 og leysa af hólmi núgildandi skipan.

ESB hefur kynnt hugmyndir um nýja skipan fjárveitinga til sjávarútvegs aðildarlanda sinna. Þessi skipan á að taka til áranna 2007 til 2013 og leysa af hólmi núgildandi skipan. 440 milljarðar króna verða til ráðstöfunar þetta tímabil, samkvæmt þeim hugmyndum sen hafa verið kynntar.

Þessi nýja skipan á að ná til allt að 27 landa, en undir núgildandi lögum, sem taka til tímabilsins 200 til 2006, voru 326 milljarðar til ráðstöfunar fyrir ESB löndin 15 og síðan hinar nýju aðildarþjóðir, 10 alls. Talsmaður sambandsins segir að með þessum nýju hugmyndum sé kerfið einfaldað mjög mikið, en höfuðáherzla er lögð á fækkun skipa og þær félagslegu og efnahagslegu afleiðingar sem henni fylgja.

Ekki verður lengur hægt að fá styrki vegna endurnýjunar skipa eða útflutnings á þeim í þeim tilfellum sem þau verða nýtt til samvinnuverkefna í löndum utan ESB. Á hinn bóginn er gert ráð fyrir því að sjómenn geti notið styrkja, ef þeir neyðast til að hætta veiðum vegna uppbyggingar fiskstofna, vegna náttúruhamfara og vegna þess að fiskveiðisamningar við ríki utan ESB verða ekki endurnýjaðir.

Úrelding fiskiskipa verður áfram styrkt, bæði af sambandinu og viðkomandi löndum vegna mikillar þarfar á að minnka veiðigetu flotans. Í fiskeldinu verða fáanlegir styrkir vegna náttúruvænna framkvæmda og þeir skelfiskræktendur sem neyðast til að hætta ræktuninni geta einnig fengið bætur. Loks getur komið til þess að leggja fé til að auka fjölbreytni í atvinnu á þeim stöðum, sem eru mjög háðir sjávarútvegi.

Framkvæmdastjórnin í Brussel hyggst draga úr beinum afskiptum sínum af þessum málum og færa þau meira í hendur viðkomandi landa. Gert er ráð fyrir að hlutur ESB í einstökum málum verði á bilinu 50 til 85%, efnir því hve bág fjárhagsstaða viðkomandi svæða er.

Öll aðildarríki ESB verða að samþykkja nýju skipanina, en vegna mismunandi áherzlna aðildarlandanna má búast við nokkurri óeiningu um málið.