Eldsneytisnotkun fiskiskipa á Norður-Atlantshafi hefur aukist verulega síðustu áratugi vegna öflugri skipa og orkukerfa um borð. Vegna alþjóðasamninga um umhverfismál hefur olíunotkunin og aukin losun gróðurhúsalofttegunda frá fiskiskipaflotanum verið ofarlega á baugi. Nú er lögð áhersla á að leita leiða til að draga úr þessari losun með því að beita nýrri tækni við hönnun og rekstur skipanna. Þá eykur hækkun á eldsneytisverði enn frekar þörfina á hagkvæmari nýtingu eldsneytis í fiskiskipum. Hönnun fiskiskipa og orkukerfa þeirra er flókið ferli og margt sem hefur áhrif á niðurstöðu hönnunar svo sem stærð og gerð skips, veiðimynstur, gerð og notkun veiðarfæra, margbreytileiki veiða o.s.frv. Vegna þeirra mörgu breytna sem hafa áhrif á endanlega útkomu hönnunar eykst mikilvægi þess að þróa stærðfræðilega aðferðafræði, sem beita má þegar við frumhönnun, þannig að besta nýting eldsneytis sé tryggð eftir að skip er komið í rekstur.
Doktorsritgerð Jóns Ágústar leggur fram nýja aðferðafræði til að beita við hönnun orkukerfa skipa og nýjan hönnunarhugbúnað, Maren, sem gerir hönnuðum kleift að beita stærðfræðilíkönum, hermilíkönum og bestun þegar við frumhönnun skips. Til að sanna gildi aðferðafræðinnar var henni beitt við endurhönnun á kúfiskveiðiskipi. Niðurstaða endurhönnunar leiddi til þess að áætluð eldsneytisnotkun skipsins dróst saman um 25-28%. Hönnunarhugbúnaðurinn Maren reyndist áhrifaríkur og fljótvirkur þegar leitað var að bestu hönnun á orkukerfum skipsins.
Rannsóknarverkefnið var stutt af Rannsóknarmiðstöð Íslands (Rannís), Nordisk Atlantsamarbejde (NORA), Nordisk Energiforskningsprogram (NEFP) og VSÓ Ráðgjöf. Sprotafyrirtækið Marorka ehf. er afrakstur þessa verkefnis. Fyrirtækið hefur 10 starfsmenn í vinnu sem nú þegar vinna náið með íslenskum og erlendum útgerðum að orkusparnaði skipa.
Jón Ágúst er með B.Sc.-gráðu frá Tækniháskólanum í Árósum frá 1985. Hann lauk síðan M.Sc.-prófi frá háskólanum í Álaborg árið 2000. Í yfir 15 ár hefur Jón Ágúst starfað við tækniþjónustu við íslensk og erlend sjávarútvegsfyrirtæki. Frá árinu 2002 hefur hann samhliða doktorsnámi sínu verið framkvæmdastjóri Marorku ehf. en starfsemi þess byggist á þeim lausnum og aðferðafræði sem doktorsritgerðin fjallar um.
Jón Ágúst er kvæntur Hildi Jónsdóttur , sálfræðingi hjá Fræðslumiðstöð Reykjavíkur. Þau eiga tvö börn, Sigrúnu Hildi og Þorstein Svan .