GÓÐ kolmunnaveiði hefur bjargað árinu og hafa verksmiðjur Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði og Neskaupstað verið fullnýttar undan farna mánuði, að sögn Gunnþórs Ingvasonar, aðstoðarmanns forstjóra Síldarvinnslunar.

GÓÐ kolmunnaveiði hefur bjargað árinu og hafa verksmiðjur Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði og Neskaupstað verið fullnýttar undan farna mánuði, að sögn Gunnþórs Ingvasonar, aðstoðarmanns forstjóra Síldarvinnslunar.

Hann segir að alls hafi um 145 þúsund tonnum af kolmunna verið landað í Neskaupstað og á Seyðisfirði það sem af er árinu og nóg hafi verið að gera hjá starfsfólki í verksmiðjunum en verksmiðjur Síldarvinnslunnar hafa tekið á móti um 330 þúsund tonnum af hráefni frá áramótum.

Gunnþór segir verksmiðju Síldarvinnslunnar á Seyðisfirði stefna í nýtt met í hráefnismóttöku í ár en hún hefur nú þegar tekið við um 150 þúsund tonnum af hráefni, þar af um 95 þúsund tonnum af kolmunna.

Loðnuveiði hefur verið mun minni það sem af er árinu en undanfarin ár. Gunnþór segir ljóst að sumarvertíðin verði minni en síðustu ár og að þetta hafi mikil áhrif á verksmiðjur fyrirtækisins á Siglufirði og Raufarhöfn.

"Þetta hefur gríðarleg áhrif á okkur en góð kolmunnaveiði hefur vegið upp á móti lítilli loðnuveiði í ár," segir Gunnþór.

20% hækkun á lýsisverði

Sala á lýsi og mjöli hefur gengið vel það sem af er árinu, að sögn Dereks Mundell, sölufulltrúa hjá SR-Mjöli. Hann segir að verð á lýsi hafi hækkað töluvert en verð á mjöli lækkað nokkuð frá áramótum. Tonn af venjulegu mjöli kostaði þá um 410 sterlingspund en kostar um 370 pund núna. Lýsistonnið hefur hækkað úr um 600 dollurum fyrir tonnið í um 720 dollara og segir Derek að hækkun á lýsisverði megi skýra með mikilli notkun lýsis í fiskeldi. Verðlækkun á mjöli er í samræmi við verðþróun á Evrópumarkaði undanfarin tvö til þrjú ár en íslenskt fiskimjöl fer einnig á Rússlands- og Bandaríkjamarkað.

Derek segir að það sé einkum tvennt sem valdi verðlækkuninni, annars vegar mikil mjölframleiðsla í Perú og Chile í sumar og hins vegar bann sem Evrópusambandið setti á sölu fiskmjöls í jórturdýrafóðri í kjölfar kúariðufaraldurs fyrir nokkrum árum. Þó sannað hafi verið að fiskimjöl olli ekki riðunni sé það enn bannað í jórturdýrafóður með þeim rökum að fiskimjöl og kjötmjöl sé svipað í útliti og að hætta sé á að kjötmjöli verði blandað út í fiskimjöl. Derek segir þetta hafa verið stóran bita fyrir fyrirtækið. "Þetta leiddi til um 20-30% samdráttar á notkun fiskimjöls í Evrópu," segir hann.