Það bítur ekkert á þorskinn. Sama hversu neikvæða umfjöllun sá guli fær í fjölmiðlum virðast vinsældir hann ekki dvína meðal evrópskra neytenda.

Það bítur ekkert á þorskinn. Sama hversu neikvæða umfjöllun sá guli fær í fjölmiðlum virðast vinsældir hann ekki dvína meðal evrópskra neytenda.

Í nýlegri skýrslu Grænfriðunga var þess krafist að 40% veiðisvæða í Norðursjó og Eystrasalti yrði lokað fyrir þorskveiðum, til verndar stofnunum enda væru þeir allir á heljarþröm. Skýrslan er sú nýjasta af hundruðum greina og álita umhverfissamtaka þar sem lýst er bagalegu ástandi þorskstofna í Atlantshafi. Þessi skilaboð virðast hins vegar ekki hafa nokkur áhrif á lyst evrópskra neytenda, að því greint er frá á vef IntraFish. Nýjar tölur frá Bandaríkjunum sýna svo ekki verður um villst að útflutningur á þorski hefur aldrei verið meiri í a.m.k. 15 ár Á fyrstu fimm mánuðum ársins voru flutt út 11.300 tonn af þorski frá Bandaríkjunum til landa Evrópusambandsins, fyrir rúm 34 milljónir dollara, 2,5 milljarða íslensra króna. Það er ríflega 700 milljónum krónum meira en verðmæti þorskútflutnings frá Bandaríkjunum á sama tíma í fyrra. Allt bendir nú til þess að í ár verði selt meira af þorski frá Bandaríkjum til Evrópu en nokkru sinni fyrr, að minnsta kosti í krónum og aurum talið. Þessi þróun hefur reyndar átt sér stað í nokkur ár. Mikil aukning varð í útflutningnum árið 1998 og síðan hefur verið stöðugur vöxtur.

Og hverjir borða allan þennan þorsk. Í hugann koma Bretar, það stappar nærri að djúpsteiktur þorskur með frönskum kartöflum sé í flokki þjóðarrétta þar í landi. En mesta þorskneyslan er samt sem áður sunnar í Evrópu, um 80% af þorskútflutningi Bandaríkjanna var til Spánar og Portúgal.

Þetta er í og með ánægjuleg þróun þarna vestan við Atlantsálanna, jafnvel þó að þaðan komi fiskur sem er í bullandi samkeppni við fiskinn héðan frá Íslandi. Hérlendis hefur þróunin nefnilega verið sú sama, spurnin eftir þeim gula fer stöðugt vaxandi og helst vilja sælkerar í Evrópu fá hann ferskan og kafa jafnvel nokkuð djúpt í vasann þegar kemur að því að borga fyrir brúsann. Þetta gerist allt um leið og sjálfskipaðir sérfræðingar umhverfissamtaka tala af eldmóð um síðasta þorskinn og stórfellda rányrkju. Það skyldi þó ekki vera að fólk sjái í gegnum orðagjálfrið?

Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að segja, enn og aftur, að áróður Grænfriðunga fari fyrir ofan garð og neðan. Það er samt sem áður full ástæða til að taka það sem frá þeim fer grafalvarlega. Eins og mörg ný og gömul dæmi sanna, hérlendis og erlendis, ratar boðskapur að lokum á áfangastað ef áróðurinn er stöðugur. Gildir þá einu rétt og rangt.

hema@mbl.is