Nýverið urðu forstjóraskipti hjá IBM í Danmörku og af því tilefni kom hingað til lands nýr forstjóri fyrirtækisins, Lars Mikkelgaard-Jensen, til að funda með helstu viðskiptavinum IBM hér og þá sérstaklega Nýherjamönnum, en Nýherji er náinn samstarfsaðili IBM og hefur verið allt frá því IBM á Íslandi breyttist í Nýherja. Mikkelgaard-Jensen leggur einmitt áherslu á að samband IBM og Nýherja sé mjög traust og náið og fyrir þeim sé Nýherji enn IBM á Íslandi, en Mikkelgaard-Jensen þekkir reyndar vel til mála hér á landi, enda var hann yfir samskiptum við norræna samstarfsaðila IBM. "Við erum mjög ánægðir með samband okkar og samstarf við Nýherja og viljum treysta það enn frekar."
IBM hefur vaxið gríðarlega á undanförnum árum eftir svo mikla niðursveiflu á níunda áratugnum og í upphafi þess tíunda. Þá urðu mannabreytingar í stjórn fyrirtækisins og nýr forstjóri, Lou Gerstner, tók við og sveigði fyrirtækið í nýja átt, lagði áherslu á hugbúnað og þjónustu í stað ofuráherslunnar sem var á vélbúnað. Þessi stefnubreyting bar svo góðan árangur að fyrirtækið hefur margfaldast að vexti og ber í dag ægishjálm yfir alla keppinauta utan einn. Forstjóraskipti urðu enn hjá IBM fyrir tveimur árum þegar Gerstner fór á eftirlaun og við tók Sam Palmisano. Frá því hann tók við hefur IBM færst æ lengra í þá átt að veita viðskiptavinum sínum alhliða ráðgjöf.
Ný hugsun
Ekki löngu eftir að Palmisano tók við kynnti hann það sem hann hefur kallað "On Demand", en það felur í sér í stuttu máli að fyrirtæki fái aðgang að tölvubúnaði og gögnum eftir því sem þau þurfa en séu ekki að greiða fyrir umframgetu, að þau fái aðstoð við að hagræða viðskiptaháttum til að geta nýtt sem best tiltækar upplýsingar og loks að þau fái aðstoð við að bregðast hraðar við kröfum viðskiptavina.Ýmsir hafa orðið til að gagnrýna IBM fyrir það hve þessi "On Demand"-hugmynd sé óljós. Mikkelgaard-Jensen segir að fyrir IBM-mönnum sé þetta ekki svo ýkja flókið. Höfuðatriði sé að fyrirtæki séu ekki að greiða fyrir nema þá vinnslugetu sem þau þurfa að nota, álíka og með rafmagn þar sem almennt greiði menn aðeins fyrir það magn sem þeir nota. "Það er kannski örlítið flóknara að lýsa því hvernig við liðsinnum fyrirtækjum að breyta viðskiptaháttum sínum, gerum þeim kleift að bregðast hraðar við, að vera ekki með mikið fé bundið í búnaði og húsnæði og eiga því erfiðara með að bregðast við ef markaðsaðstæður breytast. Sem dæmi um þá þjónustu sem við veitum er að stýra birgða- og varahlutaþjónustu eða launamálum, tökum jafnvel að okkur bilanaþjónustu og álíka sem er ekki beinlínis hluti af kjarnastarfsemi fyrirtækisins eða aðstoðum fyrirtæki við að finna aðra þjónustuaðila sem geta tekið slíkt að sér. Þetta er ný hugsun í samskiptum okkar við fyrirtæki en við teljum að þetta eigi eftir að vera mjög stór þáttur í starfsemi okkar í framtíðinni."
Mikkelgaard-Jensen segir að í undirbúningi séu slík samstarfsverkefni IBM í Danmörku og fyrirtækja þar í landi sem hann vill þó ekki segja frekari deili á að svo stöddu, en þetta sé nokkuð sem eigi eftir að gerast í mjög ríkum mæli á næstu árum. Hann segist ekki óttast samkeppni á þessu sviði að svo stöddu enda hafi IBM forskot í tæknilegu tilliti og einnig viðskiptalegt forskot eftir að hafa keypt ráðgjafarhluta Arthur-Andersen og komist þannig yfir 30.000 mjög hæfa viðskiptaráðgjafa.
Enginn sjálfum sér nógur
Nýherji hefur lagt áherslu á það undanfarið að fóstra hugbúnaðarfyrirtæki með það fyrir augum að þau verði síðan sjálfstæð fyrirtæki. Þegar talið berst að því starfi segir Mikkelgaard-Jensen að það sé mjög í anda þeirrar stefnu sem IBM hefur tekið á undanförnum árum. "Við erum með ákveðna áætlun í gangi sem smáfyrirtæki geta tekið þátt í og þá fengið aðgang að hug- og vélbúnaði sem gert getur þeim kleift að verða fullburða fyrirtæki. Þótt IBM sé með þúsundir starfsmanna í rannsóknar- og þróunarstofum skiptir það mjög miklu að ná til þróunaraðila og hugmyndasmiða utan fyrirtækisins. Á þessu sviði er ekkert fyrirtæki sjálfu sér nógt um þróun," segir hann.Mikil umræða spannst um það fyrir tveimur árum þegar borgarstjórn München tók þá ákvörðun að framvegis yrði tölvukerfi borgarinnar keyrst á Linux-stýrikerfinu í stað Windows frá Microsoft. Enn er umræða um slíkt komin af stað því fréttir frá Bergen herma að þar standi til að gera slíkt hið sama, þ.e. að tölvukerfi borgarinnar verði keyrð á Linux og notaður verði opinn skrifstofuhugbúnaður. Mikkelgaard-Jensen segir að IBM fylgist með slíku af áhuga enda hafi fyrirtækið lagt mikið fé í þróun á Linux og sé því vel í stakk búið til að aðstoða bæjarfélög við slíkt. "Linux-væðing fellur einmitt mjög vel að þeirri stefnu IBM að tryggja hagkvæmni í rekstri tölvukerfa fyrirtækja. Því fé sem IBM hefur lagt til kynningar og þróunar á Linux-stýrikerfinu og búnaði tengdum því hefur verið vel varið að mínu mati og ég geri ráð fyrir að sú þróun sem þú nefnir eigi eftir að verða víðar á næstu árum."