Árni Gautur Arason, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu.
Árni Gautur Arason, landsliðsmarkvörður í knattspyrnu. — Morgunblaðið/Kristinn
KJETIL Rekdal, leikmaður og þjálfari norska úrvalsdeildarliðsins Vålerenga, segir í viðtali við norska dagblaðið Aftenposten að íslenski landsliðsmarkvörðurinn Árni Gautur Arason verði fyrsti valkostur er deildarkeppnin hefst á ný eftir sumarfrí. En Rekdal óttast ekki að Árni Gautur sé ekki í leikæfingu eftir dvöl sína hjá Manchester City í ensku úrvalsdeildinni en fyrsti deildarleikur Árna verður gegn Lyn á mánudag.

Árni lék aðeins tvo deildarleiki með Rosenborg árið 2003 en eftir það var hann settur út í kuldann hjá forsvarsmönnum liðsins eftir að hann vildi ekki framlengja samning sinn hjá liðinu. Árni lék tvo bikarleiki með Manchester City auk leikja með varaliði félagsins. En David James, landsliðsmarkvörður Englands, er aðalmarkvörður City.

"Ég tel að ég sé betri í dag en ég var áður en ég fór til Englands. Ytri aðstæður voru mér ekki í hag eftir að ég ákvað að reyna fyrir mér í öðru landi en Noregi. Það er gott að hafa lokið við 1½ árs tímabil þar sem óvissa um framtíð mína var mikil. Slík staða er þreytandi til lengdar. Ein af aðalástæðunum fyrir því að ég valdi Vålerenga var sú að ég taldi að hér ætti ég möguleika á að vera fyrsti valkostur," sagði Árni Gautur eftir fyrstu æfingu sína hjá félaginu.

Þjálfarinn er hins vegar sannfærður um kosti Árna og mun hann standa í markinu á mánudag er Vålerenga leikur gegn Lyn á heimavelli beggja liða, Ullevål, í Osló. Búast má við því að nær uppselt verði á leikinn en völlurinn tekur um 30 þúsund áhorfendur. "Það er ekkert mál fyrir markverði að koma sér í gang. Það er svo einfalt að vera markvörður, það eina sem þeir þurfa að gera er að verja skot," bætti Rekdal þjálfari við í lok æfingarinnar með bros á vör.

Árni bætir því við að hann hafi notið þess að vera í herbúðum City þrátt fyrir að hafa aðeins fengið tækifæri í tveimur bikarleikjum gegn Tottenham og Manchester United. "Það var mikil upplifun fyrir mig að fá tækifæri í enska boltanum, enda hefur maður fylgst með þeirri deild frá því maður var ungur. Þetta var skemmtileg reynsla."