Angelo de la Cruz
Angelo de la Cruz
ANGELO de la Cruz, filippseyski vörubílstjórinn sem var gísl mannræningja í 17 daga, hélt að sín síðasta stund væri komin þegar ræningjarnir brýndu sverð fyrir framan hann og skoðuðu svo háls hans til að finna hvar væri best að skera.

ANGELO de la Cruz, filippseyski vörubílstjórinn sem var gísl mannræningja í 17 daga, hélt að sín síðasta stund væri komin þegar ræningjarnir brýndu sverð fyrir framan hann og skoðuðu svo háls hans til að finna hvar væri best að skera.

Martröðin hófst fjórða júlí þegar íraskir uppreisnarmenn gerðu árás á vörubílalest sem nýlega hafði farið yfir landamærin til Íraks frá Sádi-Arabíu, en de la Cruz ferðaðist með eldsneytisbíl í bílalestinni. Árásarmennirnir slógu hann utanundir þegar hann reyndi að streitast á móti og skutu íraskan lífvörð hans. Tíu öðrum bílstjórum var hins vegar bjargað.

Allan tímann sem de la Cruz var í haldi gættu hans sex ungir menn sem báru AK-47-vélbyssur og handsprengjur. Hann var fluttur á milli staða að minnsta kosti fjórum sinnum en þá var hann bundinn og honum troðið ofan í bílskott. Hann sá enga aðra gísla en var eitt sinn látinn dvelja í herbergi þar sem uppþornaðir blóðblettir voru á gólfinu. Hann íhugaði einu sinni að reyna að komast undan en hætti við er honum var ljóst að hann myndi vera villtur.

"Hann átti margar svefnlausar nætur," sagði ónafngreindur filippseyskur embættismaður. "Hann hafði alltaf áhyggjur af yfirvofandi aftöku sinni og velti fyrir sér hvort hún yrði framkvæmd með sverði eða byssu. Hann vonaði að það yrði hið síðarnefnda því hann bjóst við að það yrði sársaukaminna."

Á einum tímapunkti faðmaði einn mannræningjanna de la Cruz að sér og sagði: "Ég elska þig, ég elska þig, en ég verð að gera þetta." Síðan brýndu þeir sverð fyrir framan hann og skoðuðu hálsinn, virtust vera að leita að heppilegum stað til að skera. Þegar ræningjarnir sáu að filippseyskum stjórnvöldum væri alvara með að flýta heimför hersins frá Írak fögnuðu þeir og sögðu við de la Cruz: "Allah vill að þú lifir," og föðmuðu hann svo að sér. Þegar herliðið var farið frá Írak á mánudag sögðu þeir de la Cruz að hann yrði látinn laus daginn eftir. Þeir gáfu honum aura fyrir rútugjaldi og sögðu að þeir myndu skilja hann eftir í Bagdad.