Ein með öllu. Fulltrúar fjölskylduhátíðarinnar Ein með öllu, f.v. Sveinn Rafnsson, Bragi Bergmann og Birgir Torfason.
Ein með öllu. Fulltrúar fjölskylduhátíðarinnar Ein með öllu, f.v. Sveinn Rafnsson, Bragi Bergmann og Birgir Torfason. — Morgunblaðið/Kristján
EIN með öllu, sem er fjölskylduhátíð, verður haldin á Akureyri í fjórða sinn um komandi verslunarmannahelgi. Að hátíðinni stendur hópur áhugamanna sem kallar sig Vinir Akureyrar.

EIN með öllu, sem er fjölskylduhátíð, verður haldin á Akureyri í fjórða sinn um komandi verslunarmannahelgi. Að hátíðinni stendur hópur áhugamanna sem kallar sig Vinir Akureyrar. Markmiðið er að byggja upp stærstu fjölskylduhátíð landsins þessa miklu ferðahelgi og telja menn það þegar hafa náðst en áætlað er að um 14 þúsund manns hafi tekið þátt í henni á liðnu ári.

"Það er almenn ánægja með hátíðina," sagði Bragi Bergmann hjá Fremri kynningarþjónustu sem annast skipulagningu og framkvæmd hátíðarinnar. Vísaði hann þar til könnunar sem Gallup gerði fyrir Akureyrarbæ síðastliðið haust. Þar kom m.a. fram að um 95% þeirra sem spurðir voru töldu sig lítið sem ekkert ónæði hafa haft af hátíðahöldunum. "Við teljum að þeir dagar séu liðnir að hátíðin sé umdeild, mikill meirihluti bæjarbúa er ánægður með að hér sé haldin hátíð af þessu tagi," sagði Bragi.

Hann nefndi að hátíðin hefði þá sérstöðu að aðgangur að henni væri ókeypis. Í boði væri skemmtun á Ráðhústorgi, fjórum sinnum, á föstudagskvöld, tvisvar á laugardag og á sunnudag auk lokahátíðar á Akureyrarvelli á sunnudagskvöld, þar sem m.a yrði brekkusöngur og flugeldasýning. Þá yrði efnt til grillhátíða í hverfum bæjarins fyrir lokahátíðina. Styrktaraðilar sjá um fjármögnun að stærstum hluta, auk þess sem svonefndir hagsmunaaðilar leggja í púkk og Akureyrarbær leggur fram fé.

Auk skemmtana á Ráðhústorgi þar sem landsþekkir skemmtikraftar í bland við heimamenn sjá um dagskrá verður ýmis afþreying í boði fyrir alla aldurshópa, s.s. leiktæki, Go-Cart bílar, bátaleiga og ýmislegt fleira í þeim dúr.

Sú nýbreytni verður í ár að efnt verður til fjölskylduguðsþjónustu undir berum himni í Kjarnaskógi kl. 11 á laugardeginum.

Meðal hljómsveita sem leika á Akureyri þessa helgi má nefna Papa, Skítamóral, Í svörtum fötum, Á móti sól, Nýdanska, Íslenska fánann, Quarashi, 200.000 naglbíta, Gis and the City Band, Sixties og Úlfana.