* HUGO Viana , miðjumaðurinn ungi hjá Newcastle , hefur verið lánaður til síns gamla félags, Sporting Lissabon , til eins árs.

* HUGO Viana , miðjumaðurinn ungi hjá Newcastle , hefur verið lánaður til síns gamla félags, Sporting Lissabon , til eins árs. Viana , sem er portúgalskur, hefur ekki náð að festa sig í sessi hjá Newcastle en hann gekk til liðs við félagið fyrir rúman milljarð króna.

* BARCELONA hyggst styrkja vörnina fyrir næsta leiktímabil og ætlar að reyna að kaupa finnska varnarmanninn Sami Hyypia frá Liverpool en þegar hafa þeir Ludovic Giuly , Henrik Larsson og Deco gengið til liðs við spænska félagið. Ekki er talið að Liverpool muni selja leikmanninn nema fyrir umtalsverða fjárhæð.

* DARREN Anderton , gæti verið á leið til Birmingham . Steve Bruce , knattspyrnustjóri liðsins, er tilbúinn að bjóða Anderton , sem var leystur undan samningi hjá Tottenham á dögunum eftir að hafa leikið með félaginu í 12 ár, samning sem felur í sér að leikmaðurinn fái borgað fyrir þá leiki sem hann spilar.

* OLE Gunnar Solskjær fór ekki með liði sínu, Manchester United , í æfingaferð til Bandaríkjanna í gær. Þess í stað hitti hann sérfræðing vegna hnémeiðsla sem hafa hrjáð hann undanfarið.

* RAFAEL Benitez , nýráðinn knattspyrnustjóri Liverpool , sagði í gær að ekki yrðu keyptir nýir leikmenn í bráð. Ætlar Benitez að gefa þeim leikmönnum sem fyrir eru hjá félaginu tækifæri til að sanna sig. Aðeins einn leikmaður hefur gengið til liðs við félagið frá því á síðasta tímabili, Djibril Cissé , en það var Gerard Houllier sem keypti hann til liðsins.

* PORTÚGALSKI landsliðsmaðurinn Tiago hefur skrifað undir þriggja ára samning við enska úrvalsdeildarliðið Chelsea . Chelsea og Benfica höfðu fyrir nokkru komist að samkomulagi um kaupverðið, sem áætlað er að sé um 10 milljónir punda, en samningaviðræður leikmannsins um kaup og kjör við Chelsea drógust á langinn. Tiago fór því með Chelsea í æfinga- og keppnisferð til Bandaríkjanna í gær en þar leikur liðið þrjá leiki gegn Celtic , Roma og AC Milan .