Jón Steinar Gunnlaugsson
Jón Steinar Gunnlaugsson
Jón Steinar Gunnlaugsson svarar Steindóri J. Erlingssyni: "Raunar er það ljóst að allir lögfræðilegu álitsgjafarnir eru sammála um eitt: Ein niðurstaða er rétt! Sú sem þeir segjast sjálfir aðhyllast."

STEINDÓR J. Erlingsson vísindasagnfræðingur hefur verið að skrifa í Morgunblaðið greinar um lögfræði og sannleika að undanförnu. Greinar hans hafa verið að nokkru leyti tileinkaðar mér og þeim hugmyndum sem höfundur telur mig hafa um niðurstöður í lögfræðilegum álitamálum. Mér er bæði ljúft og skylt að bregðast lítillega við skrifum Steindórs.

Síðan ég fór að stunda lögfræðistörf fyrir rúmlega 30 árum hefur aðferðafræði lögfræðinnar verið mér hugleikin. Í lögfræðinni er tekist á um raunveruleg viðfangsefni, sem skipta þá sem í hlut eiga oft miklu máli, jafnvel svo að tekist er á um lífshagsmuni þeirra. Ég hef andmælt kenningum sem hafðar hafa verið uppi í lagakennslu við Háskóla Íslands, um að oft séu til margar mismunandi en jafnréttar niðurstöður í sama málinu. Sama er að segja um þann boðskap, sem þar er líka haldið fram, að starfsemi dómstólanna felist ekki bara í því að finna regluna, sem við átti þegar málsatvikin urðu, heldur hafi þeir einnig því hlutverki að gegna að setja nýjar reglur, sem síðan er beitt afturvirkt á ágreiningsefnið.

Í þessari afstöðu minni felst ekki, að ég telji verkefnin, sem við er fengist, einföld eða auðleyst. Þaðan af síður hef ég haldið því fram, að ég hafi sjálfur alltaf rétt fyrir mér, þegar ég reyni að leysa úr lögfræðilegum viðfangsefnum. Ég hef líka sagt, að alls konar sjónarmið og afstaða til lífsins sem við höfum sé líkleg til að hafa áhrif á viðhorf okkar í lögfræðinni. Aðferðafræði hennar hafi hins vegar það markmið að útrýma slíkum viðhorfum. Í stað þeirra eigi að koma aðferðir, sem leiði til sömu niðurstöðu, hvort sem dómarinn er kommi, krati eða íhald.

Ég gerði grein fyrir skoðunum mínum um þetta í lítilli bók sem kom út á síðasta ári undir titlinum Um fordæmi og valdmörk dómstóla. Mér sýnist Steindór ekki hafa lesið hana. Það ætti hann að gera, fyrst hann vill taka sér fyrir hendur það verkefni að fjalla um skoðanir mínar í þessum efnum á opinberum vettvangi. Þegar hann heimfærir skoðanir mínar til mannkynssögunnar og telur þær tilheyra svonefndum pósitívisma er allt sem hann segir fjarri því að lýsa viðhorfum mínum.

Eru öll svörin jafnrétt?

Þegar við veltum fyrir okkur aðferðum í lögfræði getum við tekið dæmi af lögfræðiþrætunum að undanförnu um frumvarp ríkisstjórnarinnar sem nú var lagt fyrir sumarþingið. Þrjár kenningar virtust vera uppi: A. Alþingi má fella fjölmiðlalögin úr gildi og setja ný, þar sem ekki er í stjórnarskránni að finna takmarkanir á þessu valdi Alþingis í tilvikum eins og því sem uppi er. B. Alþingi má hvorki fella lögin úr gildi né setja ný, meðan þjóðaratkvæðagreiðsla um lögin hefur ekki farið fram. Við synjun forseta hafi hafist "ferli", sem Alþingi megi ekki rjúfa. C. Alþingi má fella lögin úr gildi en ekki setja ný strax. Það megi bara gera síðar, þó að óljóst sé, hvaða skilyrði þurfa að vera komin fram til að það megi gera.

Spurningin er þessi: Er eitt svarið rétt eða eru þau öll jafnrétt? Getur það verið, að Alþingi hafi verið heimilt að samþykkja frumvarp ríkisstjórnarinnar, en að því hafi líka verið það óheimilt? Steindór hlýtur að sjá að þetta gengur ekki. Umræðan snerist einmitt um, hvað Alþingi væri heimilt að gera og hvað ekki. Nú má vera, að vísindalegur vafi, sem vill halda öllum möguleikum opnum, segi okkur að best sé að vera ekki of viss. En lögfræðin nýtur ekki þessarar heimildar til vísindalegs vafa. Hún verður að svara. Raunar er það ljóst, að allir lögfræðilegu álitsgjafarnir eru sammála um eitt: Ein niðurstaða er rétt! Sú sem þeir segjast sjálfir aðhyllast. Þetta gildir líka um þá álitsgjafa í þessum hópi, sem kenna nemendum sínum, að margar mismunandi niðurstöður geti verið jafnréttar. Þessum kenningasmiðum vefst alltaf tunga um tönn, þegar þeir sjálfir færa fram kenningar sínar um sannleikann í lögfræðilegu málefni og eru spurðir af hverju þeirra sannleikur sé betri en það sem aðrir boða.

Annað dæmi: Nágranni Steindórs byggir hús sem nær inn á á lóð hans. Steindór telur þetta brjóta á sér rétt og fer í mál. Nágranninn teflir fram ýmsum rökum fyrir því, að hafa mátt byggja svona. Hans lóð sé minni en lóð Steindórs; fjölskylda hans sé stærri og því þurfi hann stærra húspláss; Steindór hafi ekkert nýtt lóðarpartinn sem á var byggt; Steindór hafi ekki verðskuldað að eignast lóð sína, þar sem hann hafi fengið hana í arf eftir ríkan frænda sinn, án þess að hafa nokkuð til þess unnið. Hvað á dómarinn að gera? Má hann taka þessar röksemdir nágrannans til greina? Við vitum öll að svarið við þeirri spurningu er neitandi. Ástæðan er sú, að röksemdirnar eru ekki lögfræðilegar. Þær vísa ekki til viðurkenndra réttarheimilda. Þær má flokka til þess, sem ég leyfði mér að nefna vildarsjónarmið. Það er bara ein rétt niðurstaða til í máli Steindórs. Hann vinnur málið.

Hugarfar við leit að úrlausnum

Þegar ég gagnrýni aðra lögfræðinga fyrir það sem mér finnst vera vitlaus lögfræðiálit felst ekki í því krafa um að menn séu fullkomnir. Enginn okkar er það, kannski sem betur fer. Í því felst hins vegar krafa um að menn reyni af fremsta megni að úthýsa röksemdum, sem ekki eiga heima í aðferðafræði lögfræðinnar, jafnvel þó að þær séu í samræmi við pólitískar skoðanir álitsgjafans eða önnur huglæg viðhorf. Þeir eiga að nálgast viðfangsefnið með því hugarfari, að þeir séu að leita að hinni einu réttu niðurstöðu og mega alls ekki selja sjálfum sér þá hugmynd, að þeim hafi verið fengin heimild til að velja milli mismunandi kosta. Hvort sem Steindór trúir því eða ekki, reyni ég sjálfur, þegar ég freista þess að gefa álit, að fylgja eigin hugmyndum mínum um aðferðafræðina. Með því er ég ekki að segjast vera fullkominn, eins og sumir saka mig um. Ég er bara að reyna að vera heiðarlegur.

Jón Steinar Gunnlaugsson svarar Steindóri J. Erlingssyni

Höfundur er prófessor við lagadeild HR.