Heill og sæll Ottó og þakka þér fyrir bréfið til mín sem þú birtir í Morgunblaðinu á dögunum, Þú lýsir þar áhyggjum þínum vegna úrskurða stjórnvalda í málum um meðlagsgreiðslur með börnum og oft skrifa menn í blöðin um ómerkilegri mál en það.

Heill og sæll Ottó og þakka þér fyrir bréfið til mín sem þú birtir í Morgunblaðinu á dögunum, Þú lýsir þar áhyggjum þínum vegna úrskurða stjórnvalda í málum um meðlagsgreiðslur með börnum og oft skrifa menn í blöðin um ómerkilegri mál en það. Í bréfi þínu virðist hins vegar gæta svolítils misskilnings um ákvæði barnalaga um þetta efni og um þær reglur sem annars er fylgt við ákvörðun stjórnvalda um meðlagsgreiðslur. Þannig segir þú að í lögum sé mælt fyrir um það hver venjubundin meðlagsgreiðsla skuli vera. Þarna virðist mér sem um nokkurn misskilning sé að ræða, en barnalög segja ekki til um þetta en í þeim er á hinn bóginn mælt fyrir um lágmarksmeðlag. Lágmarksmeðlag er ekki hið venjubundna meðlag, það er, eins og orðið segir til um, lögbundið lágmarksmeðlag. Það er ekki óalgengt að foreldrar semji svo um, að meðlagsskylt foreldri greiði aukið meðlag með barni og það er heldur ekki óalgengt að meðlagsskyldu foreldri sé með úrskurði sýslumanns gert að greiða aukið meðlag með barni.

Í barnalögum og í leiðbeiningum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins til sýslumanna er skýrt tekið fram, að séu foreldrar ekki sammála um hve hátt meðlag skuli greiða með barni, og stjórnvöld verða því að ákveða meðlagsfjárhæðina, skuli ákveða meðlagið með hliðsjón af þörfum barns og fjárhagsstöðu beggja foreldra, þar á meðal aflahæfi þeirra. Þegar litið er til þeirra úrskurða sýslumanna, sem hafa verið kærðir til ráðuneytisins, sést, að almennt fylgja þeir þessum reglum og leiðbeiningum. Í úrskurðum ráðuneytisins er að sjálfsögðu byggt á þessum reglum.

Vegna ummæla þinna um að ekkert tillit sé tekið til skuldbindinga meðlagsgreiðanda, svo sem vegna húsnæðiskaupa, vil ég nefna að í leiðbeiningum ráðuneytisins til sýslumanna er einmitt sérstaklega tekið fram að rétt geti verið að líta til skulda greiðanda sem hann hefur þurft að stofna til vegna húsnæðiskaupa fyrir nýja fjölskyldu.

Ég vil sérstaklega taka fram, að í greinargerð með frumvarpinu sem varð að barnalögum nr. 76/2003 var ýtarleg grein gerð fyrir verklagi stjónvalda við meðferð meðlagsmála og að ekki voru gerðar athugasemdir á alþingi við þær. Þar voru meðal annars reifaðar þær viðmiðunarfjárhæðir sem ráðuneytið lætur sýslumönnum í té, til þess að styðjast við í meðlagsúrskurðum, í því skyni að tryggja að samræmis og jafnræðis sé gætt við ákvarðanatöku um meðlag.

Þú spyrð af hverju þessar viðmiðunarfjárhæðir hafi einungis hækkað um 10-12% á síðustu átta árum, meðan meðlag hafi því sem næst tvöfaldast. Vegna þessarar spurningar þinnar vil ég taka fram, að ráðuneytið framreiknar viðmiðunartekjurnar árlega, miðað við vísitölu neysluverðs, og sendir sýslumönnum nýjar leiðbeiningar. Ráðuneytið hefur á hinn bóginn ekkert með fjárhæð lágmarksmeðlags að gera, það ræðst af því hver er fjárhæð barnalífeyris, eins og hann er ákveðinn á hverjum tíma samkvæmt lögum um almannatryggingar.

Að lokum beinir þú þeirri spurningu til mín hvort mér finnist ekki sanngjarnt að forsjárlaust foreldri sem hefur barn sitt 3-4 mánuði á ári skuli fá niðurfellt meðlag meðan á dvöl barnsins stendur hjá því. Mér þykir eðlilegt að foreldrar, sem ná samkomulagi um að barn dvelji í svo langan tíma hjá forsjárlausu foreldri, semji sín á milli um að meðlag sé ekki greitt þann tíma. Annað mál er hins vegar og flóknara hvort rétt sé að veita stjórnvöldum heimild til að ákveða niðurfellingu meðlags ef foreldrar koma sér ekki saman um það. Slíkt gæti orðið erfitt í framkvæmd og deilur kynnu að verða um sönnun um dvöl barns hjá forsjárlausu foreldri. Slík heimild kynni að auka deilur foreldra um umgengni og gæti jafnvel komið í veg fyrir ríflega umgengni hins forsjárlausa foreldris og barnsins, en vænta má að forsjárlausu foreldri sé umgengnin meira virði en að losna undan meðlagsskyldunni um skeið.

Með góðri kveðju,

BJÖRN BJARNASON, dóms- og kirkjumálaráðherra

Frá Birni Bjarnasyni: Svar við bréfi Ottós Sverrissonar um meðlagsgreiðslur.