Flug: Fátt getur spillt ferðalaginu eins mikið og að verða strandaglópur á erlendum flugvöllum.
Flug: Fátt getur spillt ferðalaginu eins mikið og að verða strandaglópur á erlendum flugvöllum. — Reuters
Réttur farþega til bóta, verði hann fyrir töfum eða ef flug er fellt niður, miðast við ákveðna upphæð geti hann fært sönnur á að hann hafi orðið fyrir fjárhagstjóni.

Réttur farþega til bóta, verði hann fyrir töfum eða ef flug er fellt niður, miðast við ákveðna upphæð geti hann fært sönnur á að hann hafi orðið fyrir fjárhagstjóni. Samkvæmt núgildandi lögum og reglugerðum ber flugfélögum hvorki skylda til að veita farþegum mat, komi til tafa, né sjá um gistingu fyrir farþega vegna lengri tafa. Hins vegar hafa flugfélög í Evrópu, þar á meðal Icelandair, undirgengist sérstaka skuldbindingu að eigin frumkvæði um að bæta þjónustu við farþega og koma til móts við nauðsynlegar þarfir þeirra.

Rétt er að taka fram að þessi skuldbinding nær ekki til Iceland Express, enda er þar um ferðaskrifstofu í leiguflugi að ræða, sem ekki er með flugrekstrarleyfi.

Mismunandi réttindi

Að sögn Ástríðar Thorsteinsson, lögfræðings hjá Flugmálastjórn Íslands, veltur réttur farþega á því í hvernig flugi hann er. Hvort um er að ræða áætlunarflug, pakkaferð eða leiguflug.

"Réttindin eru mismunandi en verið er að samræma þau innan Evrópusambandsins og við munum líklega taka þær reglur upp á næsta ári," segir hún. Réttindin taka til bóta vegna frávísunar vegna umframbókana, langra tafa og niðurfellingar flugs og munu taka til áætlunar og leiguflugs.

Í Lögum um loftferðir eru meðal annars ákvæði um skaðabótaábyrgð vegna líf- og líkamstjóns og eins ef farangur týnist, skemmist eða eyðileggst. Ákveðnar takmarkanir á fjárhæð bóta voru settar inn í lögin sem tóku gildi 4. júlí sl. en áður var bótaábyrgð ótakmörkuð vegna tafa ef farþegi gat sýnt fram á fjárhagslegt tjón vegna tafanna.

Verður að sýna fram á fjárhagstjón

Að sögn Ástríðar kann að vera erfitt fyrir farþega að sýna fram á fjárhagstjón vegna tafa, en geti hann sýnt fram á að hann hafi misst af mikilvægum fundi, mikilvægum tónleikum eða tengiflugi, sem valdið hafi honum fjárhagstjóni, á hann rétt á bótum frá flugrekanda. Bæturnar eru takmarkaðar við 4.150 SDR, sem eru sérstök dráttarréttindi (myntkarfa útbúin af Alþjóðagjaldeyrissjóðnum) og miðast við gengi Seðlabankans á hverjum tíma.

Ef farþega er vísað frá vegna umframbókana getur hann einnig átt rétt á bótum ef hann er í áætlanaflugi en ekki ef um leiguflugi er að ræða. "Yfirleitt er leiguflug þannig að verið er að selja eitthvað annað með, hótel, bílaleigubíl eða annað, sem fellur undir pakkaferð og um þær ferðir gilda lög um alferðir," segir hún. "Þá gilda ákveðnar ábyrgðarreglur en ekki gagnvart flugrekanda heldur þeim aðila sem selur ferðina, sem getur svo átt endurkröfu á hendur flugrekanda."

Engin kvöð um mat

Að sögn Ástríðar er engin sérstök kvöð í lögum á flugrekanda um mat eða dreifingu á matarmiðum ef um tafir er að ræða. "Það hafa hins vegar nokkur flugfélög og flugvellir í Evrópu undirgengist sérstaka skuldbindingu að eigin frumkvæði, sem Evrópusamband flugmálastjórna og Evrópusambandið komu á fyrir um þremur árum og tóku formlega gildi 14. febrúar 2002," segir hún. "Annars vegar er um að ræða skuldbindingu flugfélaganna gagnvart farþegum og hins vegar rekstraraðila flugvalla um að bæta þjónustu gagnvart farþegum. En það eru ekki öll flugfélög eða flugvellir í Evrópu sem hafa undirgengist þessar skuldbindingar og ég held að það sé eingöngu Icelandair hér á landi sem hefur gert það, auk millilandaflugvallanna Keflavíkur-, Akureyrar-, Egilsstaða- og Reykjavíkurflugvallar."

krgu@mbl.is