SKEMMTIFERÐASKIPIÐ Black Watch lagðist að bryggju í Sundahöfninni í gær, og gafst hópi Íslendinga tækifæri til að fara í skoðunarferð um skipið, áður en það hélt för sinni áfram til Grænlands. Um er að ræða rúmlega 800 farþega skip sem gert er út á vegum bresk/norska skipafélagsins Fred. Olsen Cruise Lines, en Príma ferðaskrifstofa er umboðsaðili þess á Íslandi.
Black Watch er tæplega 30 tonna lúxusskip sem byggt var í Finnlandi árið 1972 og var tekið í notkun af Fred. Olsen árið 1986. Hönnun skipsins er með nokkuð öðrum hætti en gengur og gerist á stærri skemmtiferðaskipum, en þar er lögð áhersla á fágun og persónulega þjónustu í anda skemmtisiglingarhefðar Breta.
Skipið siglir reglulega til Norður- og Eystrasaltslanda, auk lengri siglinga um Karabíska hafið og Miðjarðarhaf, til Afríku og Suður-Ameríku.
Öll aðstaða um borð er hin glæsilegasta, en auk 400 káetna eru tveir veitingasalir, tvö kaffihús og sundlaugarbar um borð. Auk þess eru veislustaðir og setustofur af ýmsum gerðum þar sem boðið er upp á sýningar og lifandi tónlist. Mikil áhersla er lögð á að farþegar geti sinnt tómstundum á borð við bóklestur, spilamennsku og handverk af ýmsu tagi, og er boðið upp á námskeið á ýmsum sviðum í ólíkum ferðum. Fjölbreytilegur veislumatur er innifalinn í ferðinni, og þá getur komið sér vel að hafa aðstöðu til að stunda líkamsrækt um borð, en í skipinu er líkamsræktaraðstaða, nudd- og snyrtistofa, heitur pottur og gufubað. Þá geta farþegar stundað tennis á efsta þilfari skipsins eða æft golfsveifluna í golfklúbbi skipsins. Á sóldekkinu geta farþegar síðan svamlað í sundlaug og pottum, setið við snakkbarinn eða notið hafgolunnar á sólbekkjum.
Fred. Olsen Cruise Lines, www.fredolsencruises.co.uk Príma Ferðaskrifstofa, www.primaferdir.is |