BREYTINGATILLÖGUR allsherjarnefndar við frumvarp ríkisstjórnarinnar um eignarhald fjölmiðla voru samþykktar með 32 atkvæðum við aðra umræðu á Alþingi í gærkvöld. Fela breytingarnar í sér að engin lög um fjölmiðla verða sett á sumarþinginu og núgildandi lög falla brott. Þingmenn stjórnarandstöðunnar sátu hjá við atkvæðagreiðsluna. Þriðja og síðasta umræðan fer fram í dag og er gert ráð fyrir að frumvarpið verði afgreitt sem lög frá Alþingi fyrir hádegi. Verður það þá sent forseta Íslands til staðfestingar.
Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar, mælti fyrir meirihlutaáliti nefndarinnar. Lagði hann áherslu á í máli sínu að sú sátt, sem ríkisstjórnin hefði stefnt að, náðist ekki og því hefði þetta orðið niðurstaðan. Meirihlutinn teldi samt sem áður engan vafa leika á því að Alþingi væri heimilt að setja ný lög samhliða því að fella niður lögin um fjölmiðla frá liðnu vori. Með hliðsjón af þeim stjórnskipulega ágreiningi sem hefði skapast um valdheimildir handhafa ríkisvaldsins legði meirihlutinn þetta til.
Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði ríkisstjórnina hafa tapað sínu 100 daga stríði gagnvart þjóðinni þegar hann mælti fyrir áliti minnihluta allsherjarnefndar. "Það var órofa samstaða stjórnarandstöðunnar, sem studdist við alls kyns ólík öfl úti í samfélaginu, sem knúði þessa ríkisstjórn til undanhalds. Og undanhaldið mun halda áfram," sagði hann. Kraftaverk þyrfti svo ríkisstjórnarsamstarfið lifði af kjörtímabilið.
Forsetinn milligöngumaður
Steingrímur J. Sigfússon, formaður Vinstri-grænna, sagði að með viðbrögðum ríkisstjórnarinnar, að láta þjóðaratkvæðagreiðslu ekki fara fram, væri verið að færa forseta Íslandsmeiri völd en ætlast var til með stjórnarskránni. Hann hefði eingöngu átt að vera milligöngumaður milli þings og þjóðar. Þessi málsmeðferð gengi gegn þeirri hugsun sem hefði verið alveg kristaltær árið 1944.Svipuð gagnrýni kom fram í máli Guðjóns Arnars Kristjánssonar, formanns Frjálslynda flokksins. Þessi leið væri valin vegna þess að stjórnarflokkarnir gætu ekki hugsað sér að þjóðin felldi frumvarpið í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sú stjórnlagakreppa sem stjórnarmeirihlutinn teldi nú vera uppi, eins og kæmi fram í nefndaráliti meirihluta allsherjarnefndar, væri algjörlega heimatilbúinn. Þingmenn hefðu hengt sig á mismunandi túlkanir þess efnis að vandi væri að fara eftir 26. grein stjórnarskrárinnar. Svo væri ekki.