ÁLYKTUN þar sem hvatt er til þess að þróaðar verði mannúðlegri aðferðir við hvalveiðar en nú er beitt var samþykkt á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í gær. Var tillagan lögð fram af Nýsjálendingum.

ÁLYKTUN þar sem hvatt er til þess að þróaðar verði mannúðlegri aðferðir við hvalveiðar en nú er beitt var samþykkt á ársfundi Alþjóðahvalveiðiráðsins í gær. Var tillagan lögð fram af Nýsjálendingum. Umhverfisverndarsinnar fögnuðu þessari niðurstöðu en fulltrúar hvalveiðiþjóða segja að þeir sprengjuskutlar, sem nú eru notaðir, séu mannúðlegir og hraðvirkir.

Ályktunin var samþykkt með 29 atkvæðum gegn 22. "Þetta er mikill sigur fyrir velferð hvalanna," sagði Peter Davies, forsvarsmaður samtaka sem kalla sig Hvalavaktina. "Of margir hvalir hafa þjáðst og munu halda áfram að bíða þjáningarfullan dauðdaga af völdum skutla hvalveiðimannanna." Rune Frovik, framkvæmdastjóri Norðurskautssamtakanna, sagði að hvalveiðar væru stundaðar á mannúðlegan hátt og veiðiaðferðir væru mjög áhrifaríkar. Þeir hvalir sem ekki dræpust samstundis misstu meðvitund og fyndu ekki til sársauka. Segir Frovik að eini tilgangur ályktunarinnar sé að reyna að láta líta svo út að hvalveiðar séu grimmdarlegar.

Tvær tillögur, sem vörðuðu stofnun hvalverndarsvæða, voru felldar á fundinum í dag. Fyrst var afgreidd tillaga frá Nýsjálendingum um að skilgreina hvalverndarsvæði á Suður-Kyrrahafi. 26 greiddu atkvæði með tillögunni og 21 var á móti en 3/4 hluta atkvæða þurfti til að tillagan teldist samþykkt. Þá var felld tillaga frá Japönum um að afnema hvalverndarsvæði í Suðurhöfum með 19 atkvæðum gegn 30.