SIR Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að Chelsea geti ekki keypt sér árangur en frá því Portúgalinn Jose Mourinho tók við stjórn Chelsea af Claudio Ranieri hefur Lundúnaliðið haldið áfram að sanka að sér nýjum leikmönnum.

SIR Alex Ferguson, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að Chelsea geti ekki keypt sér árangur en frá því Portúgalinn Jose Mourinho tók við stjórn Chelsea af Claudio Ranieri hefur Lundúnaliðið haldið áfram að sanka að sér nýjum leikmönnum. Ferguson og Mourinho leiða saman hesta sína í fyrstu umferð ensku úrvalsdeildarinnar sem hefst 14. ágúst og fer leikurinn fram á heimavelli Chelsea, Stamford Bridge.

Kaldir vindar

Mönnum er í fersku minni þegar andaði frekar köldu á milli þeirra tveggja þegar Evrópumeistarar Porto undir stjórn Mourinhos slógu út Manchester United í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á síðustu leiktíð. Ferguson neitaði að taka í hönd Portúgalans eftir fyrri leikinn í Portó en Skotinn skapheiti sakaði leikmenn Porto um að veiða dómara leiksins í gildru með því að láta sig falla í grasið eftir návígi við liðsmenn sína.

Ferguson telur að Chelsea verði klárlega með í baráttunni um titlana á komandi leiktíð en hann hefur ekki trú á að eyðsla milljónamæringsins Romans Abramovich í leikmenn tryggi liðinu sjálfkrafa enska meistaratitilinn sem Chelsea hefur ekki unnið síðan árið 1995.

Peningar ekki aðalmálið

,,Peningarnar eru ekki málið. Aðalmálið er að velja réttu leikmennina til liðsins. Ég held að það stefni í mjög áhugavert tímabil vegna þess að Chelsea er með nýjan mann í brúnni sem og Liverpool og af gömlum vana þá munum ég og Arsene Wenger setja stefnuna á að vinna titla með okkar liðum. Ég held að baráttan verði milli okkar, Arsenal, Chelsea og Liverpool og ég hef alveg trú á að lið á borð við Tottenham geti blandað sér í þá baráttu," segir Ferguson, sem gerir ekki mikið úr þeim leikmönnum sem Chelsea hefur verið að kaupa að undanförnu.