Úlfar Hinriksson, þjálfari undir 21 árs landsliðs kvenna í knattspyrnu, ræðir hér við Þóru B. Helgadóttur, fyrirliða landsliðsins, á æfingu liðsins á Bessastaðavelli í gær.
Úlfar Hinriksson, þjálfari undir 21 árs landsliðs kvenna í knattspyrnu, ræðir hér við Þóru B. Helgadóttur, fyrirliða landsliðsins, á æfingu liðsins á Bessastaðavelli í gær. — Morgunblaðið/Árni Torfason
ÞÓRA B. Helgadóttir, fyrirliði íslenska 21 árs kvennalandsliðsins í knattspyrnu, hlakkar til að etja kappi við bestu þjóðir heims á opna Norðurlandamótinu sem hefst á morgun. Fyrsti leikur Íslands er á morgun en þá leikur liðið gegn Englandi. Norðurlandamótið er opið mót, það er að segja fimm Norðurlandaþjóðir sem halda úti landsliði kvenna í 21 árs aldurflokki taka þátt í mótinu ásamt þremur gestaliðum.

Liðin sem taka þátt í mótinu eru Bandaríkin, Danmörk, England, Finnland, Ísland, Noregur, Svíþjóð og Þýskaland en flest liðin eru mjög sterk. Leikið er í tveimur riðlum og Ísland er með Englandi, Svíþjóð og Danmörku í A-riðli. Sigurvegari riðilsins leikur við sigurvegara B-riðils um fyrsta sætið á mótinu.

"Opna Norðurlandamótið er gríðarlega sterkt mót. Allar bestu þjóðir heims taka þátt í mótinu. Ég er bjartsýn fyrir hönd okkar en það er fullt af mjög góðum leikmönnum í íslenska liðinu. Það verður gaman að leika hérna heima á Íslandi og ég hvet alla til þess að koma á leikina og styðja við bakið á okkur," sagði Þóra í samtali við Morgunblaðið í gær en hún leikur sem atvinnumaður með Kolbotn í Noregi.

Veikir það íslenska liðið að enginn leikmaður úr KR getur verið í landsliðinu?

"Það veikir liðið og vissulega hefði verið gott að hafa nokkra leikmenn úr KR í landsliðinu. Það munar um leikmann eins og Hólmfríði Magnúsdóttur og fleiri en það er auðvitað frábært að íslenskt félagslið geti tekið þátt í Evrópukeppni með sitt sterkasta lið í fyrsta sinn," en KR er í Slóveníu að taka þátt í riðlakeppni í Evrópukeppni félagsliða.

Hafið þið sett ykkur markmið fyrir mótið?

"Við ætlum að taka einn leik fyrir í einu og byrja á því að ná allavega stigi í fyrsta leik sem verður gegn Englendingum. Eftir leikinn við England munu við svo setja okkur nýtt markmið."

Það eru margir á því að íslenska liðið sé mjög efnilegt.

"Tvímælalaust er íslenska liðið mjög efnilegt. Þetta lið er hinsvegar ekki aðeins efnilegt því liðið er einfaldlega mjög gott. Það er bara spurning hvernig dagsformið verður hjá okkur og við verðum að vinna vel saman. Við þurfum að halda einbeitingu allan tímann því allir leikirnir verða mjög erfiðir."

Hverjir eru styrkleikar og veikleikar íslenska liðsins?

"Ég myndi segja að við hefðum óvenju mikla breidd núna miðað við síðustu ár, þó að enginn leikmaður frá KR sé í hópnum. Ég held að það verði virkilegt vandamál fyrir Úlfar Hinriksson, landsliðsþjálfara, að velja byrjunarliðið. Það er erfitt að segja hverjir veikleikarnir eru, ég held að þeir komi ekki í ljós fyrr en eftir fyrsta leik."

Verður ekki erfitt að leika fjóra leiki á sjö dögum?

"Þetta verður mjög erfitt og það mun reyna á allt liðið. Það verða ekki sömu ellefu leikmennirnir sem spila alla leikina, hver einasti leikmaður mun þurfa að leggja sitt af mörkum og allir þurfa að vera á tánum allan tímann," sagði Þóra, fyrirliði íslenska landsliðsins.

Aðgangur að öllum leikjunum á mótinu er ókeypis. Leikið verður á Akureyrarvelli, Blönduósvelli, Dalvíkurvelli, Ólafsfjarðarvelli og Sauðárkróksvelli.

Eftir Atla Sævarsson