ÍSLANDS- og bikarmeistarar ÍBV í kvennahandboltanum hafa gert samning við Zsófíu Pásztor, 29 ára gamla skyttu frá Ungverjalandi, sem á að baki 20 A-landsleiki fyrir Ungverjaland.
Pásztor kemur til ÍBV frá Portúgal en þar hefur hún leikið með Madeira Andebol sem vann alla titlana þar í landi á síðustu leiktíð.
Þetta er annar erlendi landsliðsmaðurinn sem gengur til liðs við ÍBV en á dögunum var gengið frá samningi við Florentinu Grecu, 21 árs gamlan markvörð frá Rúmeníu, sem varð franskur meistari með Metz á síðustu leiktíð og hefur leikið nokkra landsleiki fyrir Rúmena.
Lið ÍBV hefur tekið nokkrum breytingum. Aðalsteinn Eyjólfsson, sem þjálfaði liðið á síðasta keppnistímabili, er orðinn þjálfari þýska kvennaliðsins Weibern og með honum þangað fóru austurrísku landsliðskonurnar Sylvia Strass og Birgit Engl. Ákveðið var að semja ekki við markvörðinn Juliu Gantimorovu og á Grecu að fylla skarð hennar.
Alfreð Finnsson var ráðinn þjálfari ÍBV í stað Aðalsteins og mun eiginkona hans, Eva Björk Hlöðversdóttir, leika með liðinu en bæði koma til ÍBV frá Gróttu/KR.
Óvíst er hvort vinstrihandarskyttan Anna Yakova verði áfram í herbúðum Eyjaliðsins, en nokkur erlend lið hafa sóst eftir kröftum hennar. Hún er samningsbundin ÍBV.