Þriggja manna nefnd á vegum Skáksambands Íslands freistaði þess að hafa áhrif á gang mála Bobbys Fischers, fyrrverandi heimsmeistara í skák. Í nefndinni voru Guðmundur G.

Þriggja manna nefnd á vegum Skáksambands Íslands freistaði þess að hafa áhrif á gang mála Bobbys Fischers, fyrrverandi heimsmeistara í skák.

Í nefndinni voru Guðmundur G. Þórarinsson, sem var forseti SÍ þegar heimsmeistaraeinvígið var háð 1972, Helgi Ólafsson stórmeistari og Áskell Örn Kárason, þáverandi forseti SÍ. Þeir þremenningar gengu á fund sendiherra Bandaríkjanna hér, Barböru Griffiths, og spurðu fyrst hvort mál Fischers myndi einhvern tímann fyrnast, en fengu það svar að slík mál fyrntust aldrei. Í öðru lagi spurðu þeir hvort þeir gætu með einhverjum hætti unnið að því að fá Fischer náðaðan, en fengu þau svör að þeir gætu ekkert gert, aðeins hann sjálfur eða fulltrúi hans með skriflegt umboð gæti unnið í málinu. Sendiherrann vildi ekki blanda sér í málið með neinum hætti.

Síðar var þess freistað að fá Clinton Bandaríkjaforseta til að náða Fischer þegar forsetinn lét af embætti og höfðu embættismenn í forsætisráðuneytinu milligöngu þar um, en án árangurs.

Guðmundur G. Þórarinsson sagði í samtali við Morgunblaðið að margir hefðu haft samband við sig eftir að grein hans um Bobby Fischer birtist í Morgunblaðinu á þriðjudaginn. Margir hefðu spurt hvers vegna við Íslendingar tækjum bara ekki Fischer að okkur, en Guðmundur sagði allar slíkar vangaveltur stranda á hættunni á því að vegna framsalssamninga myndum við missa hann út úr höndunum á okkur.