Í senn er bæði dapurlegt og notalegt að eiga orðastað við Morgunblaðið um utanríkismál. Hið dapurlega í málinu er að blaðinu er fyrirmunað að rökræða við aðila með aðrar skoðanir en það hefur sjálft.

Í senn er bæði dapurlegt og notalegt að eiga orðastað við Morgunblaðið um utanríkismál. Hið dapurlega í málinu er að blaðinu er fyrirmunað að rökræða við aðila með aðrar skoðanir en það hefur sjálft. Hið viðkunnanlega; að það er eins og að hitta góðan kunningja á förnum vegi þegar Moggi gamli kastar hamnum og er hann sjálfur.

Undirritaður ákvað í sl. viku að leggja fyrir ritstjórn Morgunblaðsins próf og dró upp í blaðagrein nokkrar meginlínur þeirrar endurskipulagningar öryggismála í heiminum sem einstaklingar, félagasamtök, friðarstofnanir, háskólastofnanir og fjölmörg þjóðríki um víða veröld tala fyrir í ýmsum myndum. Og víkur þá að prófinu:

-kaus Morgunblaðið að rökræða hugmyndir um endurskipulagningu Öryggisráðsins og hvort svæðis- og alþjóðastofnanir eigi að hafa á að skipa eigin friðargæslusveitum í stað þess að vera háð einstökum ríkjum um liðsmenn úr þeirra herjum?

-hafði Morgunblaðið áhuga á að velta fyrir sér möguleikum þess að næsti stóri alþjóðasáttmáli á sviði öryggismála yrði um upplýsingaskyldu og gagnsæi í vopnaviðskiptum og takmarkanir eða eftir atvikum bannákvæði við vopnasölu til mögulegra átakasvæða og ríkja þar sem mannréttindi væru fótumtroðin?

-hefur Morgunblaðið skoðun á þeirri hugmynd sem fjölmörg friðar- og mannréttindasamtök og mörg hlutlaus (non-alliend) ríki tala fyrir að stefna beri að því að í framtíðinni hafi engin ríki herstöðvar utan eigin landamæra?

-valdi Morgunblaðið að blanda sér í rökræður um borgaralegar og fyrirbyggjandi friðargæslu- og friðarvarðveisluaðferðir í anda þess sem rætt hefur verið í Norðurlandaráði?

-hver eru rök Morgunblaðsins með eða á móti því að friðlýsa Ísland fyrir gereyðingarvopnum?

-sér Morgunblaðið ástæðu til að ræða kosti og galla hins merka griðasamnings Álandseyja í stað þess að gera lítið úr honum?

Því miður; ekkert af þessu sá Morgunblaðið ástæðu til að fjalla um á málefnalegan hátt í framhaldi af grein minni og kolféll á prófinu. Morgunblaðið afgreiddi málið með því einfaldlega að segja: "Steingrímur J. Sigfússon er lærisveinn Einars Olgeirssonar og Brynjólfs Bjarnasonar, gamall herstöðvaandstæðingur og fastur í hjólförum kalda stríðsins." Þarf þá ekki frekari vitna við að mati Morgunblaðsins, rök óþörf. Leiðara- og staksteinahöfundar, sem saka aðra um kaldastríðshugarfar, telja nægjanlegt að nefna til sögunnar mæta stjórnmálamenn sem voru upp á sitt besta fyrir hálfri öld og gefa sér að andstaða við herstöðvar og hernaðarhyggju séu gamaldags viðhorf.

Nýleg skoðanakönnun gaf vísbendingar í þá átt að fast að helmingur þjóðarinnar beinlínis vilji, eða sé sáttur við að herinn hverfi úr landi. Ætli þeir séu nú ekki frekar aldraðir á sálinni sem afneita því eftir sem áður að þetta viðhorf fyrirfinnist, hvað þá eigi rétt á sér? Eins er með Íraksstríðið. Það er auðvitað ekkert nema afneitun á hæsta stigi hjá blaðinu að vilja ekki horfast í augu við þann umdeilda málstað á hæpnum forsendum sem Morgunblaðið tók óumbeðið að sér að verja í því máli.

Læt ég nú duga að sinni, enda þarf ekki Morgunblaðsins við að rökræða við sjálfan sig þótt einhverjum lesendum kunni að vera það til fróðleiks.

Steingrímur J. Sigfússon svarar Morgunblaðinu

Höf. er formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs og situr í utanríkismálanefnd Alþingis.