Týndir hlekkir? Rappsveitin ógurlega, Forgotten Lores, í ham.
Týndir hlekkir? Rappsveitin ógurlega, Forgotten Lores, í ham. — Morgunblaðið/Kristinn
RAPP- og hipp-hoppsveitin góðkunna, Forgotten Lores, hefur legið í dvala að undanförnu, en nú er að færast fjör í leikinn.

RAPP- og hipp-hoppsveitin góðkunna, Forgotten Lores, hefur legið í dvala að undanförnu, en nú er að færast fjör í leikinn. Þeir félagar leika á þrennum tónleikum næstu daga; á Pravda í kvöld, í Hvíta húsinu á Akranesi annað kvöld og á Græna hattinum á Akureyri á laugardaginn.

Baldvin Þór Magnússon, rappari sveitarinnar, segir að þetta sé í fyrsta skipti sem allir fimm meðlimir Forgotten Lores spili saman á þessu ári, en hann er nýfluttur heim til Íslands. Aðspurður segir hann að þeir hafi verið að semja nýtt efni og ætli nú að safna upp í nýja plötu. "Við ætlum að spila þrjú eða fjögur ný lög á tónleikunum, í bland við gamalt og gott efni," segir hann.

Forgotten Lores sendi, sem kunnugt er, frá sér plötuna Týndi hlekkurinn fyrir síðustu jól, við góðar undirtektir gagnrýnenda og hipphoppunnenda. Væntanlega fá áhorfendur að heyra nokkur lög af því góða verki.

Forgotten Lores spilar á Pravda í kvöld, í Hvíta húsinu á Akranesi annað kvöld og á Græna hattinum á Akureyri á laugardaginn. 18 ára aldurstakmark er á öllum stöðunum.