Sandy Berger, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Clintons.
Sandy Berger, fyrrverandi þjóðaröryggisráðgjafi Clintons. — Reuters
JOHN Kerry, forsetaframbjóðandi demókrata í Bandaríkjunum, hefur undanfarna þrjá mánuði safnað liðlega 99 milljónum dollara, um sjö milljörðum króna, í kosningasjóði sína. Kerry hefur varið nær jafnmiklu fé í áróður og George W.

JOHN Kerry, forsetaframbjóðandi demókrata í Bandaríkjunum, hefur undanfarna þrjá mánuði safnað liðlega 99 milljónum dollara, um sjö milljörðum króna, í kosningasjóði sína. Kerry hefur varið nær jafnmiklu fé í áróður og George W. Bush forseti eftir að prófkjörum demókrata lauk. Báðir hafa frambjóðendurnir nú safnað meira fé en dæmi eru um í sögu Bandaríkjanna en kosið verður í nóvember.

Flokksþing demókrata hefst í Boston á mánudag og verður Kerry þá formlega útnefndur forsetaefni. Repúblikanar munu hins vegar tilnefna Bush á þingi sínu um mánaðamótin ágúst-september.

Gert er ráð fyrir að báðir frambjóðendur muni eftir flokksþingin nýta sér réttinn til að fá 75 milljónir dollara af opinberu fé til að heyja kosningabaráttu. Stuðningurinn er háður því skilyrði að þeir noti þá ekki jafnframt eigið fé eða söfnunarfé. Hins vegar geta flokkarnir varið hvor fyrir sig 16 milljónum dollara til baráttunnar í samráði við forsetaefnin og engar hömlur eru á því hvernig flokkar reka almennan áróður fyrir sjónarmiðum sínum.

Auk þess sem valinn verður forseti og varaforseti er kosið um fjölda þingsæta og ríkisstjóraembætta í nóvember.

Repúblikanar hafa komið á laggirnar sérstakri miðstöð, eins konar "orrustustjórnstöð", í grennd við vettvang flokksþings demókrata í Boston. Verða þar samræmdar aðgerðir gegn öllum yfirlýsingum á þinginu sem repúblikanar telja nauðsynlegt að svara umsvifalaust, einnig verður komið upp vefsíðu sem á að halda uppi gagnárásum á keppinautana.

Sandy Berger ekki lengur ráðgjafi Kerrys

Sandy Berger sagði í gær af sér sem ráðgjafi Kerrys en Berger hefur sætt harðri gagnrýni fyrir að taka leynileg skjöl úr bandaríska þjóðskjalasafninu þegar hann var að búa sig undir að bera vitni fyrir nefnd sem rannsakar aðdraganda hryðjuverkaárásanna á Bandaríkin 11. september 2001. Berger gegndi árum saman embætti þjóðaröryggisráðgjafa Bills Clintons, fyrrverandi Bandaríkjaforseta.

Berger segist hafa í ógáti tekið skjölin áður en hann bar vitni fyrir nefndinni í mars sl.

Washington. AP.