Theodór Júlíusson er fæddur árið 1949 og uppalinn á Siglufirði þar sem hann nam bakaraiðn. Nítján ára gamall fór hann til Noregs í nám og starfaði svo sem bakari fram til ársins 1974.

Theodór Júlíusson er fæddur árið 1949 og uppalinn á Siglufirði þar sem hann nam bakaraiðn. Nítján ára gamall fór hann til Noregs í nám og starfaði svo sem bakari fram til ársins 1974. Þá gegndi hann stöðu æskulýðs- og íþróttafulltrúa Siglufjarðar en varð leikari hjá Leikfélagi Akureyrar árið 1978. Í framhaldi af því fór hann í leiklistarnám í Bretlandi og hefur verið leikari hjá Borgarleikhúsinu frá árinu 1989. Theodór býr með konu sinni og fjórum dætrum í Kópavogi en dvelur á Siglufirði á sumrin.

Theodór Júlíusson er fæddur árið 1949 og uppalinn á Siglufirði þar sem hann nam bakaraiðn. Nítján ára gamall fór hann til Noregs í nám og starfaði svo sem bakari fram til ársins 1974. Þá gegndi hann stöðu æskulýðs- og íþróttafulltrúa Siglufjarðar en varð leikari hjá Leikfélagi Akureyrar árið 1978. Í framhaldi af því fór hann í leiklistarnám í Bretlandi og hefur verið leikari hjá Borgarleikhúsinu frá árinu 1989. Theodór býr með konu sinni og fjórum dætrum í Kópavogi en dvelur á Siglufirði á sumrin.

SÍLDARÆVINTÝRI á Siglufirði verður viðameira í ár en áður en Siglfirðingar hafa boðið til síldarævintýris hverja verslunarmannahelgi síðan árið 1991. Að þessu sinni verður fagnað tvær helgar í röð; nú um helgina og um verslunarmannahelgina.

Hvers vegna er ævintýrið tvær helgar í ár?

"Það er raunverulega verið að halda upp á að síldarævintýri Íslendinga hófst upp úr aldamótunum eða 1903. Áður höfðu Norðmenn veitt síld við landið en við fórum í rauninni ekki að græða peninga á þessu fyrr en upp úr aldamótunum. Þetta var stór hluti af útflutningstekjum þjóðarinnar í áratugi og er að mínu mati þess valdandi að við erum þetta rík í dag. Síðan var síldin ofveidd og hvarf alveg árið 1966."

Hvert var umfang síldveiða á Siglufirði?

"Þetta var langstærsta síldarhöfn landsins og Siglufjörður stækkaði óhemju hratt. Hér voru örfá hús og nokkrar hræður árið 1903 en bærinn fékk svo kaupstaðarréttindi árið 1918. Fram til 1966 var umfang síldveiða við landið mjög mikið. Á ákveðnum tíma var talað um þetta sem höfuðstað heimsins í síldveiðum. Siglfirðingar tala því oft um tvö landnám Norðmanna. Hið fyrra var þegar Þormóður rammi nam hér land árið 900. Síðan er talað um hið síðara landnám Norðmanna 1903 og þá hófust hinar miklu síldveiðar og Siglufjörður varð frægasti síldarbær í heimi."

Hver verður hápunkturinn nú um helgina?

"Ég veit nú varla hvað rís hæst. Við verðum með mikið af gestum hér um helgina. Ólafur Ragnar Grímsson [forseti Íslands] kemur í opinbera heimsókn og nokkrir ráðherrar. Auk þess kemur norski sjávarútvegsráðherrann og fullt af Norðmönnum sem koma til að minnast þessara tíma. Þeir settu þetta náttúrlega í gang hér á landi, fluttu hingað og settu upp fyrstu síldarstöðvarnar og ílengdust hér á Siglufirði. Við erum í raun að minnast þessa tíma með Norðmönnum og vildum gera það á öðrum tíma en um verslunarmannahelgina. Við gerum ráð fyrir mikilli aðsókn í Síldarminjasafnið og nýja bátahúsið. Safnið er orðið svo stórkostlegt. Svo erum við með alls konar sýningar. T.a.m. sýnir Grímur Karlsson bátslíkön gerð eftir norskum og íslenskum skipum. Þá erum við með myndlistarsýningu, leiklistarsýningu og fleira. Við sýnum m.a. málverk eftir siglfirska málara og fengum að auki ýmis málverk lánuð hjá Listasafni Íslands, t.d. eftir Mugg, Gunnlaug Stefánsson og fleiri sem komu hingað á sínum tíma og máluðu. Aðaldagskráin er á laugardag en þá spilar m.a. norska þjóðlagahljómsveitin, Lövstakken."