Bjarni Benediktsson efaðist ekki um að Alþingi væri heimilt að setja ný lög í sama frumvarpi og eldri lög væru felld úr gildi.
Bjarni Benediktsson efaðist ekki um að Alþingi væri heimilt að setja ný lög í sama frumvarpi og eldri lög væru felld úr gildi. — Morgunblaðið/Þorkell
ÞRÁTT fyrir að allsherjarnefnd telji heimilt að setja ný lög um fjölmiðla samhliða því að fella niður lögin frá liðnu vori hefur skapast ágreiningur um stjórnskipulegar heimildir handhafa ríkisvaldsins við hinar afbrigðilegu aðstæður undanfarinna vikna,...

ÞRÁTT fyrir að allsherjarnefnd telji heimilt að setja ný lög um fjölmiðla samhliða því að fella niður lögin frá liðnu vori hefur skapast ágreiningur um stjórnskipulegar heimildir handhafa ríkisvaldsins við hinar afbrigðilegu aðstæður undanfarinna vikna, sagði Bjarni Benediktsson, formaður allsherjarnefndar, þegar hann mælti fyrir nefndaráliti meirihlutans á Alþingi í gær við stjórnarfrumvarp um eignarhald fjölmiðla. Lauk annarri umræðu um frumvarpið í gærkvöldi. "Dregur það með öðru fram þann vafa sem í öllu tilliti er á beitingu og framkvæmd 26. gr. stjórnarskrárinnar og því hver sú stjórnskipulega hugsun í raun var sem á sínum tíma bjó henni að baki," sagði hann. Skoðanamunur um beitingu greinarinnar endurspeglaði grundvallarmun á afstöðu til stjórnskipunar og valdmarka handhafa ríkisvaldsins. Með hliðsjón af þeim stjórnskipulega ágreiningi sagði Bjarni að meirihluti allsherjarnefndar legði til að fjölmiðlalögin, sem samþykkt voru í vor, yrðu felld brott en aðrar breytingar skoðaðar nánar. Í málflutningi þingmanna stjórnarandstöðunnar komu fram efasemdir um að hægt væri að fella lög úr gildi sem forsetinn hefði synjað staðfestingar. Með því að beita 26. grein stjórnarskrárinnar hefði hann skotið málinu til þjóðarinnar. Þar lægi málið nú og án nokkurs vafa væri eðlilegast að fram færi þjóðaratkvæðagreiðsla um lögin til synjunar eða samþykkis. Enginn deildi um að það stæðist ákvæði stjórnarskrárinnar.

Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, spurði Bjarna eftir framsögu hans hver sá stjórnskipulegi vafi væri sem yrði til þess að meirihluti allsherjarnefndar legði til að fjölmiðlalögin, sem samþykkt voru í vor, yrðu felld brott.

Heimilt að setja ný lög

Bjarni sagðist halda að það væri öllum ljóst, sérstaklega þeim sem hefðu setið í allsherjarnefnd, um hvað þessi stjórnskipulegi vafi hefði verið. Málið snerist um það hvort þinginu væri stætt á að setja efnislega sambærileg lög í sama frumvarpi og fyrri lögin væru felld brott. Meirihlutinn hefði komist að þeirri niðurstöðu að það væri stjórnskipulega hægt en vegna ágreinings um málið - og því hefði verið teflt fram sem sérstakri sáttagjörð af hálfu ríkisstjórnarinnar og engin sátt tekist um málið - legði nefndin til að lögin yrðu afturkölluð.

Össur benti á að nákvæmlega sami vafi léki á því hvort unnt væri að kippa lögum, sem forsetinn hefði synjað staðfestingar og skotið til þjóðarinnar, úr ferli þjóðaratkvæðagreiðslu. Þungavigtarmenn teldu það ekki hægt og ef ríkisstjórnin væri samkvæm sjálfri sér léti hún stjórnarskrána njóta vafans og málið ganga sinn eðlilega veg í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Tveir ólíkir fletir

Bjarni sagði þetta tvo ólíka fleti á málinu. Annars vegar að fella lögin brott og hins vegar að setja ný lög. Nefndin væri algjörlega sannfærð um að það væri hægt samkvæmt stjórnskipunarrétti að afturkalla núgildandi fjölmiðlalög. Um síðara atriðið væru ekki færð ýtarleg rök um að hægt yrði að setja ný lög í sama frumvarpi vegna þess að meirihluti allsherjarnefndar legði það ekki til. Hann væri þeirrar skoðunar að það væri klárlega tækt samkvæmt stjórnlögum. Ástæðan fyrir því að sú leið væri ekki farin væri að ekki náðist sú sátt sem að var stefnt.