NORSKA staðarblaðið Nordlys, sem gefið er út í Tromsö, greinir frá því í frétt sinni í gær að úrvalsdeildarlið bæjarins sé á höttunum eftir liðsstyrk fyrir lokaátökin í norsku deildinni og þar sé íslenskur varnarmaður á lista félagsins.

NORSKA staðarblaðið Nordlys, sem gefið er út í Tromsö, greinir frá því í frétt sinni í gær að úrvalsdeildarlið bæjarins sé á höttunum eftir liðsstyrk fyrir lokaátökin í norsku deildinni og þar sé íslenskur varnarmaður á lista félagsins. Blaðamaður Nordlys leiðir að því líkum að Kristján Örn Sigurðsson, varnarmaður KR, og Atli Sveinn Þórarinsson, varnarmaður KA, séu á óskalistanum hjá Tromsö en þjálfari félagsins segir fátt um þessar vangaveltur.

Tore Rismo, þjálfari Tromsö, segir að hann muni fara til Íslands á næstu dögum til þess að sjá íslenska leikmenn. En Tryggvi Guðmundsson lék á sínum tíma með liðinu líkt og Orri Freyr Óskarsson, framherji Grindavíkur. "Það eru mun fleiri nöfn á listanum mínum en þessir tveir sem nefndir eru til sögunnar. Það er ekkert ákveðið í þessum efnum en ég hef fengið góðar ábendingar frá mönnum sem ég treysti, en ég ætla að fyrst að sjá þá leika í íslensku deildinni áður en einhver ákvörðun verður tekin," segir Rismo.