Krummi bregður á leik við upptökur á myndbandinu við "The Long Face".
Krummi bregður á leik við upptökur á myndbandinu við "The Long Face". — Morgunblaðið/Árni Torfason
ROKKSVEITIN Mínus hefur verið bókuð á Reading-hátíðina í Bretlandi sem fram fer dagana 27. til 29. ágúst í tveimur borgum, Leeds og Reading. Mínus verður fyrsta sveit á svið í aðaltjaldinu í báðum borgum og verður því í Leeds þann 27.

ROKKSVEITIN Mínus hefur verið bókuð á Reading-hátíðina í Bretlandi sem fram fer dagana 27. til 29. ágúst í tveimur borgum, Leeds og Reading. Mínus verður fyrsta sveit á svið í aðaltjaldinu í báðum borgum og verður því í Leeds þann 27. en í Reading þann 29. Það er Green Day sem lokar því sviði en aðrir sem koma þar fram eru 50 Cent, Placebo og The Streets. Readinghátíðin er ein rótgrónasta tónlistarhátíð Bretlandseyja og koma þar jafnan fram stærstu nöfn dægurtónlistarheimsins.

Þungarokksvikuritið Kerrang! linnir þá ekki látum og hampar sveitinni gríðarlega. Í síðasta blaði var nýjasta smáskífa sveitarinnar, "The Long Face", valin smáskífa vikunnar og í nýjasta blaðinu, sem út kom í gær, er Mínus á lista yfir þær þrjátíu sveitir sem blaðið segir að fólk verði að þekkja og er mynd af Mínus á forsíðunni. Inni í blaðinu er svo opnuviðtal við meðlimi og er sagt að þeir séu "fyrsta alvöru rokk og ról gengi aldarinnar" ("the first great rockn' roll gang of the 21st century").